149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

ráðgjafarnefnd um afnám stjórnsýsluhindrana til að greiða fyrir frjálsri för innan Norðurlanda.

684. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli nú fyrir tillögu fyrir hönd Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Hún felur í sér að Alþingi álykti að fela forsætisráðherra að skipa ráðgjafarnefnd um afnám stjórnsýsluhindrana til að greiða fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda með því að efla og samræma starf stjórnsýslunnar og annarra aðila á þessu sviði. Ráðgjafarnefndin verði m.a. skipuð þeim þingmönnum Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sem sitja í stjórnsýsluhindranahópi Norðurlandaráðs.

Í greinargerð kemur fram að í norrænu samstarfi hefur um langt skeið verið lögð mikil áhersla á baráttuna gegn stjórnsýsluhindrunum. Á vegum norrænu ráðherranefndarinnar starfar svo svonefnt stjórnsýsluhindranaráð sem skipað er embættis- og stjórnmálamönnum frá norrænu ríkjunum fimm ásamt Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum, og á að greiða fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda. Norræna ráðherranefndin rekur einnig upplýsingaþjónustunnar Info Norden sem aðstoðar þá sem flytjast búferlum milli norrænu landanna, stunda nám eða starfa í öðru norrænu landi en heimalandinu. Info Norden safnar einnig saman upplýsingum um stjórnsýsluhindranir sem einstaklingar rekast á við þessar aðstæður.

Norðurlandaráð hefur komið á fót stjórnsýsluhindranahópi sem skipaður er þingmönnum allra landa, flokkahópa og nefnda í Norðurlandaráði.

Á Norðurlandaráðsþingi sem haldið var í Ósló 29. október til 1. nóvember sl. voru samþykkt tilmæli um afnám stjórnsýsluhindrana og nú les ég þau beint úr greinargerð, með leyfi forseta.

„Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ríkisstjórna Norðurlandanna að skoða hvernig skipulagi starfs að afnámi stjórnsýsluhindrana sé háttað í hverju landi fyrir sig, bæði hvað varðar upplýsingagjöf, greiningu stjórnvalda á hindrunum og vandamálum, miðlun upplýsinga til ráðuneyta og samræmingu á og lausn slíkra hindrana, bæði hindrana sem stjórnsýsluhindranaráðið greinir og sem stjórnvöld og ráðuneyti landanna greina. Við endurskoðun á starfi landanna að afnámi stjórnsýsluhindrana mætti læra margt af starfi finnsku ráðgjafarnefndarinnar.“

Herra forseti. Ráðgjafarnefnd Norræna félagsins í Finnlandi um stjórnsýsluhindranir sem vísað er til í tilmælunum gegnir mikilvægu hlutverki þar í landi í baráttunni gegn stjórnsýsluhindrunum. Ráðgjafarnefndin heldur utan um undirbúningsfundi sem haldnir eru í Finnlandi fyrir fundi í stjórnsýsluhindranaráði norrænu ráðherranefndarinnar. Nefndin kemur saman þrisvar til fjórum sinnum á ári. Ráðgjafarnefndin ræðir á breiðum grundvelli þær stjórnsýsluhindranir sem komið hafa upp innan stjórnsýslunnar og ráðuneyta og býr fulltrúa Finnlands undir fundi stjórnsýsluhindranaráðsins.

Helstu verkefni nefndarinnar felast í að miðla upplýsingum, greina stjórnsýsluhindranir á frumstigi og skýra frá þeim. Í finnsku ráðgjafarnefndinni sitja m.a. þingmenn, fulltrúi Finnlands í stjórnsýsluhindranaráðinu, fulltrúar frá utanríkisráðuneytinu, vinnumála- og atvinnulífsráðuneytinu, félags- og heilbrigðisráðuneytinu, dómsmálaráðuneytinu, skattyfirvöldum, almannatryggingum, menntamálayfirvöldum, þjóðskrá og Halló Norðurlöndum. Íslandsdeild Norðurlandaráðs telur að með skipun ráðgjafarnefndar að finnskri fyrirmynd verði hægt að samhæfa betur starf þeirra innlendu aðila sem vinna að afnámi stjórnsýsluhindrana og styrkja stöðu fulltrúa Íslands í stjórnsýsluhindranaráði Norrænu ráðherranefndarinnar.