149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

ráðgjafarnefnd um afnám stjórnsýsluhindrana til að greiða fyrir frjálsri för innan Norðurlanda.

684. mál
[17:00]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari þingsályktunartillögu frá Íslandsdeild Norðurlandaráðs þar sem afnám stjórnsýsluhindrana — og kannski ekki síst að koma í veg fyrir að stjórnsýsluhindranir verði til — er eitt það mikilvægasta í samvinnu landa og sérstaklega þá í norrænu samstarfi og innan Norðurlandaráðs. Með þessu máli teljum við okkur vera að reyna að tryggja að við verðum sem löggjafarþing miklu upplýstari um það hversu mikilvægt það er að stjórnsýsluhindranir séu ekki til staðar þannig að við höfum það miklu meira í huga við okkar löggjafarstarf. Það er gríðarlega mikilvægt.

Ég tel þessa þingsályktunartillögu því mjög mikilvæga. Hún felur forsætisráðherra að skipa ráðgjafarnefnd um afnám stjórnsýsluhindrana til að greiða fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda með því að efla og samræma starf stjórnsýslunnar og annarra aðila á þessu sviði. Við setjum sem sagt í fastar skorður það sem ég las upp hér, setjum í fastar skorður hvernig unnið verður gegn stjórnsýsluhindrunum, bæði að afnema þær sem til staðar eru og einnig að sjá til þess að nýjar verði ekki til.

Stjórnsýsluhindranir er ekki mjög lýsandi orð og kannski ekki auðvelt að átta sig á því nákvæmlega um hvað verið er að ræða. Þær geta verið margvíslegar. Það sem hinn almenni borgari verður kannski helst var við eru allar aukahindranir, þegar hann hyggst flytja til annarra Norðurlanda til starfa eða í nám, við að afla sér vottorða, við að fylla út ýmis form og skrá fjölskyldusamsetningu — skattalegir þættir og réttindi viðkomandi, í öllu þessu geta verið vissar stjórnsýsluhindranir sem gera það erfiðara að fara til annarra landa til að starfa, mennta sig og annað slíkt. Sem dæmi má nefna þegar ákveðið flugfélag gerði alltaf kröfu um vegabréf þegar við fórum til Norðurlanda en tók ekki ökuskírteini gilt og annað slíkt, það var viss stjórnsýsluhindrun.

Mikilvægar stjórnsýsluhindranir sem við erum að vinna með núna — sem hafa oft verið ræddar þegar við vinnum með stjórnsýsluhindranir í Norðurlandaráði — eru stjórnsýsluhindranir innan EES eða Evrópska efnahagssvæðisins, hvort við getum verið í samstarfi innan Norðurlandanna í því að gera kröfu á Evrópusambandið um að haga löggjöf sinni á þann hátt að dragi úr stjórnsýsluhindrunum innan Norðurlanda og innan Evrópska efnahagssvæðisins alls.

Eitt slíkt mál sem við erum að vinna með núna, sem norrænu heilbrigðisráðherrarnir eru að reyna að finna lausn á saman, varðar rafræna fylgiseðla með lyfjum. Nú eru lögin þannig að fylgiseðlar á tungumáli heimaríkis þurfa að fylgja með í lyfjapakkningunum og út af strangara eftirlitskerfi með lyfjunum, hvernig má opna pakkann og annað slíkt, er þetta orðið dýrara og flóknara ferli sem hækkar lyfjakostnað á Íslandi. Við höfum óskað eftir því að til að geta átt greiðari viðskipti og hagkvæmari með lyf megum við afhenda fylgiseðilinn rafrænt með lyfjunum á því tungumáli sem viðskiptavinurinn óskar eftir. Í fjölmenningarsamfélagi — hér hækkar hlutfall innflytjenda og við erum alltaf að færast í átt til fjölmenningar — ætti það að fela í sér aukna þjónustu við íbúa landsins og allra Norðurlandanna, þar sem þetta yrði leyft. Þetta er ein af þeim stóru hindrunum sem við erum að vinna með, svo að ég taki dæmi. Annars varðar þetta oft fjölskylduskráningar, skattaleg samskipti á milli landa og viðskipti og annað slíkt.

Ég tel gríðarlega mikilvægt að þetta mál nái fram að ganga þannig að íslensk stjórnsýsla verði ásamt Íslandsdeild Norðurlandaráðs og Alþingi meðvituð um að reyna að fækka þessum stjórnsýsluhindrunum eins og hægt er. Þannig hámörkum við gæði norrænnar samvinnu, ef okkur tekst það. Það verður þá líka til þess að við myndum síður nýjar stjórnsýsluhindranir, og helst alls ekki, þegar við vinnum að löggjöf hér á Alþingi.

Ég fagna þessu máli og tel um mikið hagsmunamál að ræða fyrir íbúa allra Norðurlanda. Það er gott dæmi um það hve miklu máli alþjóðleg samvinna getur skipt og þá helst norræn samvinna sem er okkar helsta alþjóðlega samvinna.