149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

ráðgjafarnefnd um afnám stjórnsýsluhindrana til að greiða fyrir frjálsri för innan Norðurlanda.

684. mál
[17:07]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Sem einn af fulltrúum Alþingis í Íslandsdeild Norðurlandaráðs er ég meðflutningsmaður á þessari tillögu til þingsályktunar um ráðgjafarnefnd um afnám stjórnsýsluhindrana til að greiða fyrir frjálsri för innan Norðurlandanna. Hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir rakti efni tillögunnar og hv. þm. Vilhjálmur Árnason talaði líka um mikilvægi þessa máls og ýmsar stjórnsýsluhindranir. Rakti hann sérstaklega það sem snýr að rafrænu fylgiseðlunum sem ég tel og tek undir að sé afar brýnt hagsmunamál og ekki hvað síst fyrir okkur sem tilheyrum fámennri þjóð þar sem fáir tala tungumálið.

Það er sérstaklega mikilvægt fyrir okkur að ekki þurfi að opna allar lyfjaumbúðir til að setja fylgiseðla þar inn. Ef vel er að því staðið verður þetta til þess að bæði lækka kostnað en einnig að auka öryggi sjúklinga sem geta þá fengið þær upplýsingar á móðurmáli sínu en ekki bara á íslensku.

Meginástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs til að ræða um þessa þingsályktunartillögu er að mig langar að tæpa á líklega alstærstu stjórnsýsluhindruninni sem Norðurlandaráð stendur frammi fyrir. Hún verður til vegna þess að velferðarkerfi þjóðanna, þó að þau séu um margt lík, byggja öll á eigin löggjöf með eigin sérstöku reglum, sem hefur sérstaklega áhrif á lífeyrisþega.

Hvað á ég við með því? Til að útskýra mál mitt aðeins frekar er tilgangurinn með afnámi stjórnsýsluhindrana að greiða fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlandanna með því að efla og samræma starf stjórnsýslunnar. Það gengur mjög vel á ýmsum sviðum. Þetta gengur alveg ágætlega þó að vissulega séu ákveðnir hnökrar á þegar kemur að réttindum, til að mynda launafólks.

Við Íslendingar sem og aðrar Norðurlandaþjóðir hvetjum fólk til þess að fara til annarra Norðurlanda, setjast þar jafnvel að í lengri eða skemmri tíma, stunda nám og taka þátt á vinnumarkaði. Þetta gengur, held ég að megi alveg segja, í það stóra nokkuð vel og réttindi fylgja fólki. Ef það hins vegar gerist eitthvað meðan fólk er búsett erlendis, og þetta gildir í rauninni hvar sem er í heiminum, ef það verður fyrir alvarlegu slysi eða fær alvarlegan sjúkdóm og missir starfsgetu sína situr það uppi með að hafa skert réttindi innan almannatryggingakerfis heimalands síns vegna þess, líkt og ég kom inn á áðan, að kerfin, almannatryggingakerfin og velferðarkerfin á Norðurlöndunum, eru byggð upp með ólíkum hætti og með sérlöggjöf.

Þetta er mál sem þarf bæði fjalla um í innanlandssamhengi og í alþjóðasamhengi. En mér finnst mjög mikilvægt að við fjöllum líka um það í hinu norræna samhengi vegna þess einmitt að Norðurlöndin stæra sig af því að vera með mjög samþætt kerfi í löndum sínum. Þess vegna er það svo grátlegt að ef til að mynda íslenskur námsmaður flytur til Danmerkur, 24 ára einstaklingur, og verður fyrir því óláni að verða fyrir bíl og hljóta mænuskaða eða greinast með illvígan taugasjúkdóm og missa í kjölfarið starfsgetuna á hann ekki rétt á örorkulífeyri í Danmörku vegna þess að þar er kerfið öðruvísi uppbyggt og t.d. enginn undir fertugu fær örorkulífeyri. Flytji sá einstaklingur aftur heim til Íslands á hann heldur ekki rétt á fullum örorkulífeyri hér vegna þess að það þarf að hafa náð ákveðnum búsetuárum á Íslandi til að hafa fullan rétt í kerfinu.

Það er engin patentlausn til. Um þetta hefur verið fjallað í ýmsum hópum og m.a. í stjórnsýsluráði. Þetta er hreinlega eitt af þeim málum sem hafa verið óleysanleg hingað til. Ég ætla ekki að þykjast hafa töfralausnina á því hvernig málið verður leyst en mér finnst mjög mikilvægt að við séum með augun opin fyrir því að hið annars ágæta kerfi sem við höfum búið okkur til á Norðurlöndunum með samþættingu landanna hefur samt þennan stóra galla þegar kemur að öryggi, velferð og fjárhagslegri afkomu fólks.

Þetta þarf að hafa í huga þegar verið er að breyta löggjöf innan landa og þegar verið er að skoða ýmis mál sem tengjast stjórnsýsluhindrunum almennt. Ég held því að þingsályktunartillagan hér, þó að hún leysi ekki þetta vandamál, sé mikilvægt innlegg í það, a.m.k. þannig að hægt sé að nota vettvang þeirrar ráðgjafarnefndar sem lagt er til að Alþingi feli forsætisráðherra að skipa og hún geti komið á dagskrá. Fyrsta skrefið í því að leysa einhver vandamál er yfirleitt að gera sér grein fyrir því að vandamálið sé til staðar til að byrja með.

Ég vil að lokum segja að ég tel það til mikils gagns að ráðgjafarnefnd um afnám stjórnsýsluhindrana verði sett á laggirnar. Það er svo auðvitað undir þeim komið sem sitja í henni hvað verður úr starfinu. Stjórnsýsluhindranirnar eru sumar risavaxnar, eins og sú sem ég hef lýst, og aðrar eru eins og það sem lýtur að rafrænu fylgiseðlunum, ansi stórar en þó tæknilegt mál sem hægt er að leysa. Aðrar eru hlutir sem er hreinlega hægt að leysa með því að vera vakandi fyrir því sem er í gangi. Tiltekin lönd innan Norðurlandanna geta til að mynda leyst svolítið sín á milli með því að sýna liðleika.

Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt skref í rétta átt. Ég held að við öll sem höfum áhuga á norrænu samstarfi séum sammála um að við viljum að Norðurlöndin séu samþætt svæði og við viljum geta staðið undir því að við vera samþætt svæði. Þess vegna vona ég að þingsályktunartillagan verði samþykkt og að við getum haldið áfram að vinna gegn stjórnsýsluhindrunum á vettvangi Norðurlandanna.