149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

mótun stefnu um bráðaþjónustu utan spítala.

687. mál
[17:32]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir lokaorð hv. þm. Vilhjálms Árnasonar um að fagna framkominni þingsályktunartillögu um mótun stefnu um bráðaþjónustu utan spítala. Eftir að hafa rennt í gegnum málið sýnist mér að þessi þingsályktunartillaga sé í mjög góðu samræmi við þá heilbrigðisstefnu sem hæstv. heilbrigðisráðherra lagði fram og þingið samþykkti fyrir ekki svo löngu síðan.

Ég hef lengi haft áhuga á þessum málaflokki, þ.e. utanspítalaþjónustu. Mér var kennt það fljótlega af góðum vinum að maður talar sem sagt um utanspítalaþjónustu, ekki sjúkraflutninga, það er allt of þröngt hugtak. Utanspítalaþjónusta nær yfir ansi marga hluti, eins og hv. þm. Vilhjálmur Árnason fór yfir áðan, þannig að utanspítalaþjónusta er mjög mikilvægur þáttur og vaxandi í okkar heilbrigðisþjónustu.

Eins og fram kemur í greinargerð er það m.a. vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar, fjölgunar ferðamanna, fækkunar fæðingarstaða og að skurðstofum hefur verið lokað vítt og breitt um landið, þannig að við erum með nokkuð stór svæði sem fólk þarf að fara talsvert langar vegalengdir til að fá heilbrigðisþjónustu. Við þurfum að mæta þessu breytta landslagi. Þingsályktunartillaga hv. velferðarnefndar er tilraun og liður í því að reyna að fylla upp í götin, skilgreina ábyrgðir, tengja aðila saman, bæta menntun þeirra sem að koma, sem er gríðarlega mikilvægt. Allt þetta, þ.e. þessi samræming og bætt menntun, er náttúrlega til þess að bæta fyrst og fremst öryggi almennings í landinu.

Við höfum því miður séð fréttir um afar viðkvæmt ástand, myndi ég segja, t.d. á sjúkrabifreiðum sem notaðar eru í dag. Samningar um rekstur sjúkrabifreiða hafa verið lausir í nokkur ár, eins og nefnt er í greinargerðinni. Þetta má náttúrlega ekki gerast. Við verðum að tryggja fjármagn. Við erum sammála um að vilja hafa þessa þjónustu, að hún sé mikilvæg og sé mikilvægur hlekkur í heilbrigðisþjónustunni, eins og ég nefndi áðan, en þá verðum við að tryggja fjármagn til reksturs nauðsynlegra tækja og tryggja fjármagn til menntunar og endurmenntunar þeirra aðila sem veita þessa þjónustu.

Ég hef kannski ekki miklu við þetta að bæta. Mér finnst greinargerðin með málinu mjög góð og nefndir eru þessir hlutir. Ég er sammála því sem fram kemur hér.

Við erum með ákveðnar fyrirmyndir af þekkingarsetrum, eins og hv. þm. Vilhjálmur Árnason nefndi einmitt áðan, sem gætu nýst fyrir sjúkraflutningafólk.

Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra en við vorum áðan með umfjöllun um nokkur vestnorræn og norræn mál. Því langar mig að nefna í þessu samhengi — ég sé að hv. þm. Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, er hér í salnum — að nefndin hafi kannski til hliðsjónar við áframhaldandi vinnslu málsins skýrslu sem má nálgast á vef landlæknis. Þetta er norræn skýrsla og í fyrsta sinn sem slík skýrsla er unnin, sem er niðurstaða umfjöllunar samstarfshóps sem skipaður var um utanspítalaþjónustu með áherslu á sjúkraflutninga. Í skýrslunni er verið að skilgreina ferla og hugtök og lagðir eru til 13 sameiginlegir gæðavísar. Í þessum málum sem öðrum hef ég ofurtrú á samvinnu. Staðan annars staðar á Norðurlöndunum er nefnilega nákvæmlega sú sama og hjá okkur, þ.e. að alls staðar er aukið vægi á utanspítalaþjónustu. Við erum því ekki ein um þetta. Við eigum að vinna með nágrönnum okkar og leita í þekkingu þeirra og reynslu og vinna saman til að leita góðra lausna.

Ég legg það því inn hjá hv. velferðarnefnd að hún skoði þessa ágætu skýrslu. Hún var birt á vef landlæknis 19. mars, að mig minnir, á þessu ári og gæti verið gagnleg.

Ég þakka nefndinni kærlega fyrir að hafa lagt af stað í þessa vinnu og eins og ég sagði áðan er hún í góðu samræmi við samþykkta heilbrigðisstefnu og liður í því að gera heilbrigðisþjónustuna okkar enn betri og tryggja þar með öryggi íbúa á Íslandi.