149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[17:58]
Horfa

Flm. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn, ef við orðum það svo. Þingvallanefnd er nú þeim merkilegu eigindum gædd að skipta sér af öllu sem viðkemur þjóðgarðinum á Þingvöllum. Og af hverju er það? Vegna þess að það er fyrirskipað í lögum. Lögin eru upprunalega frá 1928 þegar engir þjóðgarðar voru til á Íslandi. Þannig bjuggu menn um þetta svæði og það hefur síðan haldist í öll þessi ár, með breytingum á lögum um þjóðgarðinn, eins og síðast 2004 og svo núna.

Við höfum þessa sérstöðu og okkur ber skylda til þess að ákvarða t.d. hvort kaupa eigi sumarbústaði eða ekki, við skulum segja einhvern sumarbústað sem ekki er lengur í notkun og er innan þjóðgarðsins og fleira. Ég hef rætt um þetta áður úr ræðustól. Það sem gerist og við styðjum mörg hver, held ég, jafnvel flest, alla vega í Þingvallanefnd og jafnvel öll, að það verða breytingar með nýjum lögum um Þjóðgarðastofnun þar sem verið er að taka allmörg verkefni frá Þingvallanefnd og setja undir svipað fyrirkomulag og í öðrum þjóðgörðum. Þá myndi þetta t.d. vera eitt af því. En ekki hefur verið áhugi á því að afnema þessi tengsl með öllu, leggja Þingvallanefnd niður eða eitthvað slíkt, sem er auðvitað pólitísk spurning. Sumir í Þingvallanefnd myndu svara því: Jú, það er allt í lagi. Aðrir myndu segja: Nei, alls ekki. Við viljum að þessi tengsl séu út af eðli Þingvalla og stöðu í samfélaginu o.s.frv.

Ég get alveg tekið undir margt af því sem hv. þingmaður sagði. En meðan lögin eru þarna og þjóðgarðalög ekki til er þetta svona.