149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[18:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru einmitt rökin sem framkvæmdarvaldið notar og á að nota, að svona séu lögin sem við förum eftir. Við erum löggjafarvaldið hérna þannig að þegar þessi spurning kemur upp er það að sjálfsögðu líka okkar að svara því. Þess vegna er líka dálítill árekstur þarna á milli að þingið sé þá að setja lög um nefnd sem það sinnir sjálft, þegar rétta hlutverkið væri að setja lög fyrir framkvæmdarvaldið sem það færi eftir og við sæjum síðan um eftirlitið með því að farið sé að lögum. Það verður óhjákvæmilega skrýtið að spyrja þingmenn hvort þeir fari eftir lögum sem þingmenn, en ekki sem framkvæmdarvald, þegar Þingvallanefnd setur samt reglugerðir, mótar atvinnustefnu og gerir ýmislegt sem ráðuneytið ætti í rauninni að gera eða einhver stofnun ætti síðan að sinna.

Ég kaupi ekki alveg rökin að þetta séu bara lögin því að hérna setjum við lögin. Hefðin er vissulega gömul fyrir því að hafa einhverja Þingvallanefnd og eitthvað því um líkt. Það er ýmislegt sem við höfum verið að breyta, að því er ég vona til betri eða nútímalegri vegar, og af hverju ekki að breyta þessu líka? Ég tel það vera mjög augljóst að þarna er, eins og í nokkrum öðrum nefndum, Framkvæmdasjóður aldraðra er annað dæmi, þar sem þingmenn eiga ekkert að vera að vasast í einhvers konar framkvæmdarvaldsákvörðunum, að vera í rauninni framkvæmdarvaldið á sama tíma og þeir eru þingmenn með eftirlit með því framkvæmdarvaldi.