149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:52]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum að fara nokkur ár aftur í tímann hvað varðar forvarnir í þessum málum. Við höfum unnið ötullega að forvörnum og getum alveg séð að það sætti svo sem ekkert endilega miklum tíðindum fyrir 30 árum að jafnvel 10. bekkjar ferðalag hefði einkennst af svona smádrykkju. Það þótti ekki frétt á milli byggðarlaga þótt út brytist einhver ölvun í því sambandi. En nú held ég að það þætti tíðindum sæta.

Ég man eftir krökkum sem fóru í 10. bekkjar ferðalag til Danmerkur og þeim þótti með ólíkindum að sjá að unglingar á þeirra aldri væru með bjór í hönd og það þætti bara eðlilegt. Jafnvel í fermingarveislum í Danmörku eru fermingarbörn með bjór og þykir það stundum svona hluti af veisluföngunum að bjórflöskur séu merktar fermingarbarninu sérstaklega.

En það er menningarmunur og við höfum horft á þá menningu breytast á síðustu áratugum. Ég get ekki ímyndað mér annað en að aukið aðgengi ungmenna yrði til þess að við færum nokkur skref aftur í þessum málum, enda held ég að það sé bara með hvaða vöru sem er. Það er ekkert endilega áfengi fremur en annað. Ef við aukum aðgengi aukum við neyslu.