149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í dag kemur inn til þingsins frumvarp um þungunarrof til 3. umr. Mikil umræða hefur verið um þetta mál allt frá því að það var lagt fyrir þingið í haust og við meðferð málsins. Eðlilega. Það hafa allir skoðanir á þessu máli og það eiga allir að hafa skoðanir á þessu máli. Margir eiga erfitt með að hugsa sér að þungunarrof sé leyfilegt upp að 22. viku eða þegar kona er rétt hálfnuð með meðgöngu. Í gildandi lögum er leyft að framkvæma þungunarrof á þessum tímamörkum en til þess þurfa konur að fá leyfi sérfræðinga. Hér hafa verið tillögur lagðar fram um að þessi mörk verði færð niður í 12 vikur, 16, 18 og nú nýjast 20.

Virðulegi forseti. Ég var sjálf lengi þeirrar skoðunar að við skyldum hafa mörkin við 16 eða 18 vikur. En eftir vinnu við frumvarpið í nefndinni sem var gríðarlega mikil, við fengum fjölda sérfræðinga, bæði leikmenn og sérfræðinga í þessum efnum sem fóru vel yfir málið, þá varð niðurstaðan að ég studdi þessar 22 vikur þar sem ég fann ekki þau rök sem þurfti til að sannfæra mig um að fylgja því að aftengja sjálfsákvörðunarrétt kvenna við 16 eða 18 vikur og eftir það þyrfti sérstakt faglegt mat og leyfi sérfræðinga. Hver ætlar að taka að sér að hafa faglega þekkingu á lífi og framtíð konunnar sem er betur til þess fallin að ráða því sjálf? Það er jú konan sem tekur afleiðingum ákvörðunar og ber þá ábyrgð út lífið. Konan hefur sem fyrr alltaf aðgang að fagaðilum og getur ráðfært sig við þá.

Virðulegi forseti. Við getum öll haft okkar persónulegu skoðanir á þessu og fylgt þeim eftir í okkar lífi. En hérna erum við að undirstrika það að konan ber ábyrgð á eigin líkama, tekur sína ákvörðun og ber þá ábyrgð út ævina. Við getum haft á þessu skoðanir, haldið þeim fyrir okkur, en tökum undir sjálfsforræði og rétt kvenna yfir sínum líkama. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)