149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

staða innflytjenda í menntakerfinu.

[14:19]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Í þekkingunni býr afl. Þekkingin gefur yfirsýn um aðstæður, heilbrigða sjálfsmynd og hæfileika til að greina í sundur staðreyndir og tröllasögur. Menntun gerir okkur síður útsett fyrir lýðskrumi og tilraunum til að æsa upp heift og hatur. Góð menntun er lykill að betri kjörum með aðgangi að betur launuðum og skemmtilegri störfum. En góð menntun er líka mikilvæg fyrir samfélagið allt því að góð menntun er lykillinn að því að hér verði góð sambúð fólks af ólíkum uppruna og með ólíkan bakgrunn. Menntun á samt ekki að vera mót til að steypa alla í og góð sambúð felst ekki í því að aðkomumaðurinn lagi sig í einu og öllu að þeim sem fyrir er heldur að aðkomumaðurinn finni sitt rými.

Menntun er mannréttindi. Hættan sem fylgir miklu brotthvarfi nemenda með annað móðurmál en íslensku er augljós. Einhæf og illa launuð störf verði hlutskipti fólks, ættlið eftir ættlið, að fólk festist í hlutverki aðkomumannsins sem fær ekki inngöngu í samfélaginu nema sem þjónn og vinnuafl. Það er óásættanlegt í sjálfu sér fyrir viðkomandi. Skorti á tækifærum fyrir heilu þjóðfélagshópanna fylgir líka höfnunarkennd, beiskja og reiði sem getur grafið um sig og þá verður til jarðvegur fyrir andfélagslega hugmyndafræði.

Í þekkingunni býr afl. Þess sér furðu lítinn stað á opinberum vettvangi að hér búi tugþúsundir nýrra Íslendinga. Við sjáum þá ekki í spjallþáttum fjölmiðlanna og skáldsögur þeirra líta ekki dagsins ljós. Tónlist þeirra hljómar ekki, rödd þeirra heyrist ekki. Vissulega hefur sambýli fólks af ólíkum þjóðernum gengið vel víða um land með gagnkvæmri virðingu, en okkar bíður mikið verk við gagnkvæma aðlögun ef ekki á illa að fara og þar gegna skólar og góð menntun lykilhlutverki.