149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

staða innflytjenda í menntakerfinu.

[14:21]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga efni og hæstv. ráðherra fyrir ræðu hennar og í raun það sem gert hefur verið í menntamálaráðuneytinu á síðustu árum. Við höfum fengið fréttir og fengum ágæta yfirferð yfir það í ræðunni og sjáum hversu mikil áherslan hefur verið á þennan málaflokk á síðustu misserum, enda er raunverulega mikil þörf á því. Það skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli að það fólk sem flytur hingað til lands og vill deila með okkur Íslandi og auðga mannlíf okkar fái til þess fullt tækifæri. Þar er skólakerfið okkar, menntakerfið stærsti parturinn.

Mér líst vel á þær hugmyndir sem hafa komið fram og á þá vinnu sem er í gangi hjá menntamálaráðuneytinu. Mig langar þó að minnast líka á þá sem ég ætla að leyfa mér að nota orðið snúbúa um — við höfum oft talað um nýbúann okkar — þ.e. íslensk börn sem eru alin upp að hluta til erlendis og snúa svo til baka til Íslands.

Ég þekki þess dæmi að þau börn falli stundum ekki alveg inn kerfið, fái ekki þá aðstoð sem þörf er á. Þess vegna finnst mér mikilvægt að það sé nefnt í því samhengi, þ.e. tvítyngd börn og börn sem hafa íslensku sem móðurmál en hafa alist upp annars staðar á málþroskaskeiðinu, sem gerir þetta allt saman erfiðara. Það er mikilvægt að horfa á þá þætti.

Svo beini ég því til hæstv. ráðherra að huga sérstaklega að sveitarfélögunum í því efni. Það eru sveitarfélögin sem reka bæði leikskólann og grunnskólann. Þau eru mjög misjafnlega í stakk búin til að takast á við þessi krefjandi verkefni og ástæða til þess að þau geti deilt reynslu sinni og þekkingu hvert með öðru.

Þá langar mig að nefna tækifæri sem felast í því þegar hingað koma börn sem eru af erlendu bergi brotin. Þau þurfa að hafa tækifæri til að uppfræða samnemendur sína um móðurmál sitt og menningu. Ég held að það geti verið mikilvægur þáttur í að byggja upp sjálfsmynd þessara einstaklinga.