149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

staða innflytjenda í menntakerfinu.

[14:36]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka málshefjanda, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttir, fyrir að koma þessu máli á dagskrá og ráðherranum fyrir að vera til andsvara. Það er mikið réttlætismál fyrir innflytjendur og börn þeirra að geta gengið að sama borði og við í menntamálum. Það vill svo til að innflytjendum fjölgar sífellt og þá þurfum við að geta mætt því á réttlátan hátt.

Ég hef töluvert umgengist útlendinga sem hafa komið hingað til að vinna og þá oft í kringum sjávarútveginn, í fiskvinnslu og á sjó og við ýmis störf. Þá er viðhorf oft það sem ég hnýt um hjá viðkomandi innflytjendum. Það sem skiptir máli í því hvernig þeim reiðir af er að læra tungumálið eitt og sér. Oft koma þeir hingað til þess að vera í eitt eða tvö ár, hugsa sér það, en svo ílengjast þeir einhverra hluta vegna og þá eru þeir oft komnir í vanda af því að þeir hafa ekki í upphafi komið með þá hugsun að þeir ætli að verða Íslendingar eða vera hérna lengur. Þá er tungumálakunnáttan lakari og oft mjög léleg og eins réttindavitund þeirra gagnvart launum og öðru slíku, hvernig þeir geta lesið út úr kjarasamningum, sem hefur reyndar aðeins lagast en mætti ganga betur.

Það sem kom fram í sambandi við lesskilning og kennslu í skólum og ráðherra kom inn á var það átak sem ráðherrann hefur verið með í að byggja undir kennarastéttina. Það sýnir sig í þeim löndum sem við berum okkur saman við að þar sem byggt er vel undir kennara og kennslumál gengu fólki betur að læra t.d. að lesa.