149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

staða innflytjenda í menntakerfinu.

[14:40]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir mikilvæga umræðu. Ég vil hefja hana á þeim orðum að það er dýrt að gera ekki neitt í þessari stöðu. Við verðum að bregðast við. Ef við ætlum að njóta alls þess góða, þess sem innflytjendur geta bætt í samfélagi okkar þurfa þeir náttúrlega að geta tekið þátt í samfélaginu og vera metnir verðleikum.

Ég vil taka aðeins víðtækari umræðu en hefur verið í dag og segja að við verðum sem stjórnvöld að leggja áherslu á vaxtarsvæði þar sem ferðaþjónusta og önnur slík starfsemi hefur stækkað mikið og hlutfall innflytjenda er hátt. Ég vil fyrst nefna Suðurnesin sem dæmi. Við erum með fjölmennan bæ eins og Reykjanesbæ þar sem innflytjendur eru komnir yfir 25% af íbúatölunni. Í grunnskólunum eru yfir 60 þjóðerni og töluð yfir 45 tungumál. Slík vaxtarsvæði þarf að vinna með og tryggja að þau geti tekist á við svona áskorun, svo það gangi vel.

Þá er annað sem við þurfum að hafa í huga en að horfa á brottfall og að koma í veg fyrir brottfall innflytjenda og annarra úr framhaldsskólunum. Við þurfum að hafa áhyggjur af börnum innflytjenda sem koma ekki í framhaldsskóla, sem taka ekki þátt, mæta ekki einu sinni og hætta svo og verða þannig hluti af brottfallshlutfallinu heldur koma þau bara aldrei. Við sjáum að hlutfall íbúa sem fer í framhaldsskóla minnkar eftir því sem hlutfall innflytjenda hækkar. Við þurfum virkilega að komast að því hvar þau börn eru stödd sem mæta ekki í skólann, sem fara ekki í framhaldsskóla, hvað þá í háskóla. Við þurfum að finna þau og komast að því hvernig við getum aðstoðað þau.