149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

staða innflytjenda í menntakerfinu.

[14:45]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að menntun er mannréttindi. Það er stefna okkar í Viðreisn að börn, ekki með íslensku að móðurmáli, fái þann stuðning sem þarf til að jafna forsendur til náms í íslenskum skólum. Það er stefna Viðreisnar að við viljum sérstaklega að stutt verði við aðlögun innflytjendabarna, á neðri skólastigum ekki síst. Það hefur áhrif á framvinduna síðar meir innan skólakerfisins. Við í Viðreisn viljum frelsa svolítið námsefnisgerðina, gera hana samkeppnishæfari og að ráðherra taki svolítið til sín og forgangsraði m.a. í þágu barna innflytjenda. Við í Viðreisn viljum líka að gerð verði sérstök aðgerðaáætlun fyrir þá einstaklinga sem hafa annað tungumál en íslensku að móðurmáli. Og við í Viðreisn leggjum líka sérstaklega áherslu á aðbúnað kennara. Það þýðir líka menntun kennara.

Ég vil sérstaklega fagna áherslu menntamálaráðherra hvað það varðar og að taka eigi á kennaramenntun, sem ég styð heils hugar að sé fimm ár, en það hefur vantað og skort á ákveðna sérhæfingu og ekki síst áherslu á starfsnám. Ég held að þarna séu sóknarfæri til að einbeita sér að því að byggja undir sérhæfingu fyrir börn innflytjenda. Það vantar fleiri sérfræðinga sem eru útskrifaðir af meistarastigi, sem eru sérstaklega menntaðir til að aðstoða og hjálpa við að kenna þeim börnum íslensku sem hafa annað tungumál að móðurmáli.

Það þarf líka að tala um tækni, að við nýtum tæknina með því að opna kerfið. Það er heldur ekki hægt að gera þetta allt á forsendum hins opinbera. Við verðum að nota enn og aftur bæði einkaaðila sem og opinbera aðila til þess að styðja við börnin. Alveg eins og með sjúklinga í heilbrigðiskerfinu, þá eru það nemendurnir sem skipta meginmáli í menntakerfinu. Þá þurfa allar hendur að leggjast á plóginn. Það þýðir til dæmis að leita þarf til sérfræðinga utan við kerfið og við þurfum líka að ryðja burt, ekki síst til að ýta við stoðþjónustunni, öllum hindrunum á vinnumarkaði (Forseti hringir.) sem koma eiginlega í veg fyrir að við nýtum stoðþjónustu (Forseti hringir.) m.a. pólskra sálfræðinga og pólskra talmeinafræðinga. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að skoða það sérstaklega hvaða hindranir (Forseti hringir.) það eru sem við (Forseti hringir.) stöndum frammi fyrir til að beita raunhæfri stoðþjónustu fyrir börn innflytjenda.