149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

staða innflytjenda í menntakerfinu.

[14:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna verulega þeirri umræðu sem hefur átt sér stað í þingsal vegna þess að þetta málefni skiptir okkur öll miklu máli. Ég lít á það þannig að allir sem koma hingað eigi að njóta sömu tækifæra. Við höfum verið þeirrar gæfu aðnjótandi að margir hafa flutt hingað til landsins og lagt hönd á plóg, en mér finnst að sú þjónusta sem við höfum verið að bjóða í íslensku menntakerfi ekki samboðin okkur, þ.e. við getum ekki sætt okkur við að brotthvarf á framhaldsskólastiginu sé margfalt meira hjá börnum með annað móðurmál en íslensku. Við getum ekki sætt okkur við að árangur þeirra í alþjóðlegum samanburðarprófum sé langtum lakari en barna með íslensku að móðurmáli. Og við getum ekki sætt okkur við það að þegar þessi börn koma af leikskólastiginu njóti þau ekki sömu tækifæra á grunnskólastiginu.

Ég tek þetta mál mjög alvarlega og þess vegna höfum við sett saman mjög öflugan vinnuhóp undir forystu Jóhönnu Einarsdóttur prófessors. Og ég segi: Það verður að vera algert markmið hjá okkur á næstu þremur, fimm og níu árum að staða þessara barna og staða þessa hóps taki gjörbreytingum. Allt annað er óásættanlegt í íslensku samfélagi. Það sem gleður mig er að sjá allan þingheim taka höndum saman og segja: Við ætlum að gera betur. Við ætlum að gera miklu betur.