149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[15:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég fagna því hvert þetta mál er komið. Mig langar að nefna það hérna, fyrst maður hefur nokkrar sekúndur til að tjá sig um málið, að mér finnst þess virði að íhuga aðeins að átta stunda vinnudagur var ekki fundinn út með því að fólk reiknaði út hvað væri best fyrir skilvirkni og framleiðni.

Þetta eru bara 24 deilt með þremur, þetta er bara 24 klukkustunda sólarhringur. Fólk vildi sofa í átta tíma, gera eitthvað einkalífinu í átta tíma og vinna í átta tíma. Flóknara er það ekki.

Síðan þá höfum við farið í gegnum umsvifamestu tækniframfarir sem mannkynið hefur nokkurn tímann upplifað. Maður hefði haldið að hægt væri að slappa aðeins af án þess að það myndi bitna sérstaklega mikið á framleiðni og velmegun samfélagsins. Ég tel að það sé frekar augljóst. Og þótt mér finnist þetta vera mjög jákvætt skref þá finnst mér að við ættum almennt velta því fyrir okkur hvort við þurfum endilega að hafa alla framleiðni heimsins frekar en kannski bara að hafa aðeins meiri tíma til að lifa lífinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)