149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

um fundarstjórn.

[15:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við 2. umr. komu fram fullyrðingar hér í sal sem ég vildi fá svar við, um að landlæknisembættið fullyrti að ekkert barn lifði eftir 22. viku. Það voru svona fullyrðingar sem ég vildi fá að ræða betur. Menn segja að það sé ómálefnalegt að ég biðji um það en ég tel að lýðræðið sé þannig. Fyrst málinu var vísað eftir 2. umr. til nefndarinnar og til umræðu þar þá fór ég fram á þetta en mér var neitað um það. Menn segja svo að ég sé með ómálefnalegar ástæður en ég taldi lýðræðið vera þannig. Kannski eru það mín mistök að þekkja ekki nægilega vel til, að þegar málið fer til 3. umr., fer í nefnd eftir 2. umr., þá megi bara ekki gera neitt. Kannski er það lýðræðið. Ég bað einfaldlega um að landlæknir yrði kallaður til og við myndum ræða málið aðeins betur. Er það einhver dauðasynd?