149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[16:02]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Svo að ég endurtaki það þá var þetta mál lagt fram 23. nóvember 2018. Þá lá fyrir að um 22 vikur væri að ræða. Þessi vikufjöldi sem fer svona hrikalega fyrir brjóstið á hv. þingmönnum, sem heimta að málið fái lengri umræðu, að málið fái meiri tíma, að málið fái meiri umræðu, en flýja í unnvörpum úr salnum um leið og 3. umr. hefst — hvar eru þeir hv. þingmenn? Nei, hv. þingmaður var að flytja sína flutningsræðu. Ég held að þeir hafi fáir áhuga á öðru en að heyra sjálfa sig tala hér í þessari pontu, en ekki að þau sjónarmið sem rætt er um hér verði reifuð.

Hv. þingmaður nefnir að þetta hafi fengið allt of stuttan tíma í þinginu. Málið var lagt fram 23. nóvember 2018. Það var rætt í þingsal 11. desember. Þá voru öll þessi álitaefni reifuð líka. Öll þessi álitaefni hafa líka verið reifuð fyrir hv. velferðarnefnd. Umfjöllun í þeirri nefnd hófst 12. desember. Það er vitað að undanþágur gilda í núgildandi löggjöf. Það er vitað að færa átti sjálfsákvörðunarréttinn yfir til konunnar frá því sem nú er, að núna, eftir 16. viku, liggur það hjá sérstakri nefnd. Og almennt og yfir höfuð ef kona vill fara í þungunarrof þá þarf hún að fá til þess samþykki frá embættismönnum.

Breytingartillagan, sem hv. þingmaður leggur til, þrengir rétt kvenna til þungunarrofs. Hann getur ekki sagst vera sammála sjálfsákvörðunarrétti kvenna á sama tíma og hann þrengir núgildandi réttindi þeirra. Það passar bara ekki saman. Ef núgildandi löggjöf gerir ráð fyrir að hægt sé að fara í þungunarrof fram að 22. viku og breytingartillaga hv. þingmanns gerir ráð fyrir 20. viku þá er hv. þingmaður að leggja til að þrengja rétt konu til heilbrigðisþjónustu, til sjálfsákvörðunarréttar á eigin líkama.

Hv. þingmaður talaði um að það væri best fyrir alla, líka konurnar, að sem mest sátt ríki um þetta mál. Ég spyr hv. þingmann: Er það mikilvægast fyrir hann að hann sé sáttur við réttindi kvenna til að þau fái fram að ganga?