149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[16:16]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Forseti. Eins og margoft hefur komið fram í umræðunni er þetta mál viðkvæmt og snúið og það snertir ansi marga strengi. Það hefur náttúrlega gert og gerir aðrar og meiri kröfur til þeirra sem ekki geta upplifað það sem við ræðum hér að kynna sér efnið eins vel eins og hægt er til að geta nálgast málið af einhverri skynsemi, vonandi.

Það hefur ýmislegt komið fram hér og í ferli málsins. Ég hef verið svolítið upptekinn af því í þessu máli að veita þurfi þeirri konu eða hverri konu sem vill ganga þessa braut eins góða ráðgjöf og hægt er og að hún njóti alltaf bestu aðstoðar sem hún kýs sjálf.

Ég tók nánast af handahófi út tvær frásagnir kvenna af fjölmörgum, önnur var blaðaviðtal, hin var grein sem var sett á netið, þar sem konur lýsa reynslu sinni af fóstureyðingu. Önnur konan lýsir því þannig að hún var gengin mjög stutt þegar hún lét eyða fóstri og gerði það upp á eigin spýtur, eins og hún sagði, spurði engan, sagði engum og næstu sjö ár í lífi hennar, eins og hún segir sjálf, voru ónýt og hún sjálf þar með. Í hinni frásögninni er um að ræða unga konu sem var í erfiðu sambandi, varð barnshafandi, var þá komin í annað samband. Hún var undir miklum þrýstingi frá bæði þáverandi sambýlismanni og fjölskyldu sinni um að fara í fóstureyðingu. Sem hún gerði að lokum og lýsir því hvaða áhrif það hafði á líf hennar. Og hún segir í endann, og ég held að það sé kannski kjarni málsins, að það eigi engin kona að fara í fóstureyðingu nema hún fái ein tíma með félagsráðgjafa áður en hún tekur ákvörðun sjálf. Þessi ágæta kona sem ég segi frá í þessari seinni sögu tók vissulega þessa ákvörðun sjálf en undir að því er virðist þrýstingi sem er ósæmilegur.

Ég hef ekki dregið dul á að ég styð þetta frumvarp í eðli sínu, þ.e. ég styð það að konur hafi sjálfsákvörðunarrétt í þessum málum. Ég hef staldrað við ýmislegt og rætt það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Ég hef líka reynt að lesa og kynna mér umsagnir sem bárust nefndinni, svo sem eins og frá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands.

Síðan var önnur umsögn sem ég staldraði mjög við þegar ég las hana. Það er umsögn frá fyrrverandi þingmanni, Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur. Hún segir í upphafi máls síns, með leyfi forseta:

„Ég leggst af alhug gegn þeim áformum að færa út tímamörk þungunarrofs til loka 22. viku meðgöngu. Tel ég að það stangist á við mannréttindaákvæði ýmis og inngróin sjónarmið sem lúta að mannhelgi og réttinum til lífs.

Benda má á að ef barn sem tekið er úr móðurkviði svo seint dregur lífsandann (sem ekki er ólíklegt eftir svo langa meðgöngu) ber heilbrigðisstarfsfólki skylda til þess að verja líf þess og gera allt sem í þess valdi stendur til þess að halda því á lífi. Sama starfsfólk og rauf meðgönguna er þar með sett í óviðráðanlega, siðferðilega og tilfinningalega togstreitu sem ekki er leggjandi á nokkra manneskju.“

Síðan fer þessi ágæti hv. fyrrverandi þingmaður aðeins yfir forsöguna, lögin nr. 25/1975, og svo segir hún, með leyfi forseta:

„Í fyrirliggjandi frumvarpi er gert ráð fyrir því að kona hafi sjálfsákvörðunarrétt til þess að binda endi á meðgöngu. Sá réttur er löngu tímabær að óbreyttu núgildandi viðmiði til þungunarrofs. Mikilvægt er að virða rétt einstaklings til sjálfsforræðis yfir líkama sínum sem og til að taka ákvörðun um barneign.“

Ég gæti ekki verið meira sammála, herra forseti. Síðan segir þessi sama ágæta kona og fyrrverandi þingmaður, með leyfi forseta:

„ Ef frumvarpið hefði miðað við óbreytt tímamörk (16 vikur) má segja að hugtakið „þungunarrof“ sem innleitt er í frumvarpinu hefði verið við hæfi, hugtakanotkun þar með skilmerkileg og í samræmi við það sem raunverulega um ræðir. Svo er ekki í núverandi mynd frumvarpsins. Með því að færa tímamörkin sem heimila fóstureyðingu frá því sem nú er til loka 22. viku hefur hugtakinu „þungunarrof“ verið breytt í hálfgert andheiti, því það er látið ná til þess sem með réttu ætti að heita „fóstureyðing“, þ.e. þegar endi er bundinn á meðgöngu þegar sannarlega er um að ræða mannsfóstur með virka líffærastarfsemi en ekki frumstig fósturs.

Sjálfsákvörðunarréttur fólks verður að vera innan einhverra marka sem telja má siðferðilega verjandi. Hugmyndir um að færa viðmiðið til loka 22. viku, með einhliða ákvörðun þungaðrar konu án sérstakra heilsufarslegra og/eða læknisfræðilegra ástæðna, þegar fóstur er sannarlega orðið barn og getur jafnvel lifað utan líkamans er ekki siðferðilega verjandi.“

Þetta segir hin ágæta fyrrverandi hv. þingkona.

Nú ætla ég ekki að segja að ég ætli endilega að fara nákvæmlega í fótspor hennar í þessum málflutningi. En ég vil ítreka það sem ég hef sagt að langur vegur er á milli þess sem upphaflega kom fram af hálfu hæstv. heilbrigðisráðherra, í frumvarpi hennar, um 18 vikur og í þær 22 vikur sem nefndar eru. Mikið hefur verið gert úr því að það sé í raun og veru ekki verið að breyta neinu með frumvarpinu, þessar 22 vikur séu þegar gildandi. Það er rétt að fóstureyðing eftir 16. viku eða eftir 12. viku hefur jú verið framkvæmd og alveg að 22. viku og jafnvel lengra ef þannig háttar til að konu stafar hætta af eða ef vitað er að fóstrið muni ekki geta lifað.

Síðan er annað sem hefur reyndar komið fram líka í umsögnum, t.d. frá Þroskahjálp og Félagi áhugafólks um Downs-heilkenni, að við þurfum náttúrlega að koma í veg fyrir þá hugsun og þann grun að þessi vikufjöldi sé með einhverjum hætti hugsaður til þess að hægt sé að velja úr, hægt sé að fækka börnum með Downs-heilkenni. Þá umræðu þarf að taka á einhverjum tímapunkti með einhverju móti þó að við gerum það ekki endilega núna. Það eru kannski ástæður eins og þessar sem hvetja mann til að fara enn á ný fram á það að frumvarpið verði gaumgæft enn betur og reynt sé að ná eins víðtækri samstöðu um málið og hægt er.

Í raun og veru er málið miklu stærra en það að verið sé að karpa um það og bera hvert öðru einhverjar annarlegar hugrenningar á brýn. Við eigum einfaldlega að setjast niður yfir málið og leita að sátt sem er þannig að allir geti staðið hér saman sem einn maður með réttindum kvenna, með réttindum ófæddra barna og að við finnum það jafnvægi sem er þannig að við getum öll staðið að því.

Svo ég vitni enn til orða fyrrverandi þingmanns, Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur, segir hún að lokum í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Í hnotskurn: Undirrituð leggst alfarið gegn 4. gr. frumvarpsins sem felur í sér útvíkkun tímamarka til fóstureyðinga til loka 22. viku.

Eðlilegt hefði verið að halda fast í óbreytt tímaviðmið samhliða því að taka upp fortakslausan sjálfsákvörðunarrétt kvenna til að binda endi á þungun. Yrði það gert má segja að hugtakið „þungunarrof“ geti átt rétt á sér og verið til áréttingar því sjónarmiði sem liggur til grundvallar sjálfsákvörðunarréttinum.“

Þessi ágæta fyrrverandi þingkona setti líka inn á fésbókina færslu sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Þessa dagana er Alþingi að ljúka afgreiðslu þungunarrofsfrumvarpsins og allt bendir til þess að það verði samþykkt. Fjöldi þingmanna felur sig bak við ákvæðið um sjálfsákvörðunarrétt kvenna til þess að réttlæta þá ákvörðum að rýmka frest til fóstureyðinga úr 12–16 vikum í 22 vikur án annarra ástæðna en vilja móður. Í 4. gr. frumvarpsins er nefnilega gert ráð fyrir því að nú megi eyða fóstri til loka 22. viku án þess að sérstakar ástæður liggi þar að baki aðrar en vilji móðurinnar. Þetta kalla sumir þingmenn sigur fyrir kvenfrelsið og liggja öðrum þingmönnum á hálsi fyrir að virða ekki sjálfsákvörðunarrétt kvenna þó svo að enginn ágreiningur hafi verið gerður um títtnefndan sjálfsákvörðunarrétt heldur einungis tímamörkin.“

Fyrrverandi þingkona endar mál sitt á þennan hátt, með leyfi forseta:

„Svona eru nú hundakúnstirnar stundum í þinginu þegar grafalvarleg mál eru þar til umfjöllunar — í þessu tilviki líf og dauði.

Þetta er þyngra en tárum taki.“

Í stuttu máli, herra forseti, tek ég mjög undir orð þessarar ágætu hv. fyrrverandi þingkonu sem seint verður sökuð um að hafa ekki þekkingu eða rétta líkamsburði til að mynda sér skoðun á málinu. Því er það þannig að þegar við sem erum fædd í þessum líkama sem við erum, þá verðum við náttúrlega að leita í smiðju til einhverra sem vita og hafa reynt til að geta tekið til máls þannig að vit sé í.

Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi. Það er í sjálfu sér ekkert í frumvarpinu sem ég get ekki staðfest og samþykkt með mjög góðum hug og vilja annað en 4. gr. þess. 4. gr. frumvarpsins get ég ekki stutt. Ég get ekki stutt það að 22 vikna gömlu fóstri sé eytt án einhverra læknisfræðilegra og/eða veigamikilla ástæðna. Þess vegna segi ég líkt og sú ágæta kona sem ég hef vitnað mikið til, að í raun og veru hefði okkur verið í lófa lagið að útvíkka þetta mál með þeim hætti að sjálfsákvörðunarrétturinn væri virtur að fullu, það væri ekki einhver nefnd sérfræðinga sem tæki ákvarðanir fyrir konur í erfiðum kringumstæðum og við erfiðar aðstæður í lífi þeirra. Að sjálfsögðu þarf að tryggja, og nú vitna ég aftur í sögur þeirra ágætu kvenna sem ég varð mér úti um, að það er algjörlega ljóst að ekki er einungis nóg að konur fái góða ráðgjöf áður en þær taka sjálfar ákvörðun, heldur þurfa þær alveg klárlega stuðning eftir að hafa gengist undir fóstureyðingu eða þungunarrof. Þær þurfa alveg klárlega mikinn stuðning til að, hvað á ég að segja, komast yfir þá ákvörðun sem er verulega erfið í mörgum tilfellum. Það er kannski slík aðstoð, bæði á undan á eftir, sem ég hef á tilfinningunni að hafi ekki verið næg af hálfu heilbrigðisyfirvalda. Þar þurfum við sannarlega að bæta úr.

Eins og margoft hefur komið fram í umræðunni gengur enginn þessa götu að gamni sínu eða léttúð, síður en svo. Þess vegna þurfum við að sýna konum, sem þurfa einhverra hluta vegna að ganga þessa braut, virðingu og ótakmarkaðan stuðning eins lengi og mikinn og þær þurfa.