149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[16:31]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við erum hér stödd í 3. umr. um mjög erfitt mál er varðar þungunarrof. Ég ætla að leyfa mér að taka undir með hv. þingkonu Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, sem talaði hér áðan um að kannski væri æskilegt að í svona erfiðu máli, þar sem fólk virðist eiga erfitt með að taka ákvörðun, væru kannski fleiri hér í þingsal til að taka þátt í umræðunni. En ég treysti því þá að þeir ágætu þingmenn sem enn hafa ekki fyllilega gert upp hug sinn séu að horfa á útsendinguna og noti tímann vel til að fara yfir rök með og á móti í þessu máli.

Ég er sammála því sem kom fram í máli hv. þm. Páls Magnússonar hér áðan að við værum kannski að einhverju leyti fyrst og fremst að fjalla um siðfræðileg úrlausnarefni.

Virðulegur forseti. Ég viðurkenni það fullkomlega, að þegar fréttir um þetta mál bárust fyrst, var ég ekki viss um að ég væri málinu hlynnt. Ég fékk símtöl frá fólki sem er mjög nástatt mér sem hreinlega öskraði: Hvað eruð þið að gera? Ég skil ofboðslega vel þau viðbrögð sem hafa verið uppi úti í samfélaginu og ekki síður hjá þingmönnum þegar þetta mál er rætt. En það er þannig að hér í þingsal erum við oft að takast á við mjög erfið mál og við getum ekki alltaf hugsað það bara út frá okkur sem persónum og þeim aðstæðum sem við þekkjum til. Við erum einfaldlega að setja lagaramma í kringum svo ótrúlega ólík atriði og ótrúlega ólíkar aðstæður sem upp kunna að koma.

Virðulegur forseti. Ég tel mig hafa kynnt mér málið mjög vel og hef reynt að fylgjast með umræðunni sem átt hefur sér stað í hv. velferðarnefnd. Það sem ég notaði sem ákveðið haldreipi til að komast að niðurstöðu um afstöðu mína í þessu máli var í fyrsta lagi sjálfsákvörðunarréttur konunnar en í öðru lagi að ekki væru skrifuð inn í löggjöfina — það er voðalega erfitt að nota orðið fötlunarfordómar — einhvers konar ákvæði sem heimila þungunarrof þegar lengra er gengið þegar vansköpun af einhverju tagi kann að vera til staðar. Ég held að það sé mjög óæskilegt og þess vegna held ég að það sé betra að nálgast málið eins og gert er í frumvarpinu og eins og það liggur fyrir þinginu að taka afstöðu til.

Mig langar að fá að benda á stöðufærslu eða stutta grein sem Inga María Hlíðar Þorsteinsson, sem er ung ljósmóðir, skrifaði á fésbókarsíðu sína fyrr í dag. Hún er þar að fjalla um þungunarrofsfrumvarpið. Hún er líka aðeins að benda á þetta með meðgöngulengdina, hve það er oft flókið fyrir okkur leikmennina að tala um það, því að þetta er svolítið fræðimál. Þegar við t.d. tölum um fram að lokum 22. viku þá erum við raunverulega að tala um 21 viku plús sex daga. Umræður hafa skapast hér um unga stúlku sem býr á Ólafsfirði eða í Ólafsvík og sagt er að hún hafi fæðst um það leyti, en samkvæmt mínum heimildum er ekki farið rétt með, samkvæmt mínum heimildum fæddist sú stúlka eftir 23. viku.

Mig langar að drepa aðeins niður í lok færslu Ingu Maríu, þar sem hún segir:

„Flestir styðja sjálfsákvörðunarrétt kvenna en samt ekki alveg. Þegar á botninn er hvolft snýst frumvarpið um hvort heimila eigi konu að hafa fullan sjálfsákvörðunarrétt yfir eigin lífi og líkama eða ekki. Eins og staðan er í dag þurfa fagaðilar að gefa konunni leyfi til að fara í fóstureyðingu eftir 12. viku og maður spyr sig hvor sé betur fallinn til að taka þessa ákvörðun, konan sjálf eða læknir eða einhvers konar nefnd. Margir þingmenn segjast styðja efni frumvarpsins í heild sinni, en þeir setji spurningarmerki við lengd meðgöngunnar. Mörkin eru sett við lok 22. viku vegna þess að barn er ekki talið eiga lífsvon utan móðurkviðar á þeim tíma auk þess sem konur geta farið í þungunarrof upp að þeim tíma í dag en þurfa þá tilskilin leyfi frá öðrum eða þriðja aðila. Ég get skilið afstöðu margra sem telja meðgöngulengdina vera á of gráu svæði, m.a. vegna þess hve læknavísindunum fleygi hratt fram. Eftir mikla umhugsun myndi ég ekki vilja þurfa að taka ákvörðun fyrir neinn annan en sjálfa mig um hvort ég vildi láta binda enda á þungun og þá hvort og hvar markið eigi að liggja. Því ætti kona, sem stendur frammi fyrir þessari erfiðu ákvörðun, að hafa úrslitavald í þessum efnum og eðlilegt tel ég að draga markið við 22. viku til að koma í veg fyrir að konur sæki fóstureyðingar til annarra landa. Einungis með þeim hætti getum við tryggt öllum konum landsins jafna þjónustu óháð aðstæðum.“

Þarna var ég að vísa í fésbókarfærslu frá þessari öflugu ungu ljósmóður.

Ég hef sagt það áður hér í ræðu að mér finnst að við eigum að hlusta á sérfræðinga í þessum efnum. Ég held einfaldlega að við getum engan veginn verið sérfræðingar í lífi og aðstæðum allra sem þurfa mögulega einhvern tímann að óska eftir þungunarrofi.

Mér finnst líka mjög mikilvægt að það komi fram í þessari umræðu að við erum í raun að fjalla um algjör jaðartilvik. Eins og stendur í frumvarpinu í umræddri 4. gr., með leyfi forseta:

„Heimilt er að rjúfa þungun konu, að hennar beiðni, til loka 22. viku þungunar. Þungunarrof skal ætíð framkvæmt eins fljótt og auðið er og helst fyrir lok 12. viku þungunar.“

Þetta eru eingöngu fyrstu línurnar í greininni en svo fylgir meira og ég ætla ekki að lesa það.

Samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér voru 3,5% þungunarrofa framkvæmd á 13.–16. viku, en 1% eftir 16. viku. Sú umræða sem fór einna helst fram undir liðnum fundarstjórn forseta á að mínu viti ekki rétt á sér þegar verið er að ræða um að binda enda á líf ungbarns í móðurkviði eða eitthvað þess háttar. Mér finnst svo mikilvægt að við höfum í huga að við erum hér að fjalla um algjör jaðarfrávik og að miklu leyti þá einstaklinga sem kannski þurfa hvað mest á vernd okkar og aðstoð að halda.

Við erum að tala um konur sem kunna að vera í mjög erfiðum félagslegum aðstæðum. Þær kunna að vera fórnarlömb nauðgana. Það kann að vera mjög ungur aldur og það getur svo sem líka verið nauðgun og ungur aldur. Það kann að vera neysla fíkniefna. Það kann að vera heimilisofbeldi eða að þær séu hreinlega fórnarlömb mansals. Þá velti ég fyrir mér: Viljum við hv. þingmenn ekki geta komið til móts við þá aðila? Og teljum við í raun að við séum að gera einhverjum gagn eða bjarga einhverjum með því að segja nei við þungunarrofi hjá konum í slíkum aðstæðum?

Við 3. umr. liggur fyrir breytingartillaga frá hv. þm. Páli Magnússyni um að í stað 22. viku standi 20. vika. Ég get alveg skilið þá breytingartillögu og ég verð að viðurkenna að þegar málið kom fyrst fram velti ég þeim möguleikum upp. En eftir að hafa farið vandlega yfir málið og eftir að hafa skoðað þá stöðu sem uppi er í dag — þ.e. að þungunarrof er heimilt fram að lokum 22. viku í sérstökum aðstæðum, þegar um ákveðna fósturskaða er að ræða — sé ég ekki að við séum að færa okkur til betri vegar ef við myndum afmarka okkur við 20 vikur í frumvarpinu.

Ég ítreka enn og aftur það sem ég hef margoft sagt í ræðum um þetta mál að ég skil að fólki finnist þetta erfitt. En mér finnst mikilvægt að við þingmenn getum fjarlægt okkur frá því sem við þekkjum til, hvort við myndum einhvern tímann sækjast eftir þungunarrofi, vera sátt við að maki okkar geri það, börn eða annar okkur nærstaddur. Við erum einfaldlega ekki að fjalla um það. Við erum að setja ramma utan um alls konar aðstæður sem upp kunna að koma í samfélaginu. Það er ekkert sem bendir til þess að þungunarrofum muni fjölga. Það er ekkert sem bendir til þess heldur að konur myndu fresta því að fara í þungunarrof eftir því sem líður á meðgönguna þrátt fyrir slíka breytingu. Tölfræðin sýnir okkur það einfaldlega ekki.

Ég er ekki í neinum vafa um að kona sem er komin 20–22 vikur á leið og er að íhuga þungunarrof sé fullkomlega meðvituð um það hver staða fóstursins er, fullkomlega meðvituð um það. Þess vegna held ég að það hljóti að vera alveg gríðarlega erfiðu ákvörðun. Ég treysti mér ekki til að taka slíka ákvörðun fyrir nokkurn annan. Ég treysti mér ekki til að skrifa inn í löggjöfina hvers konar undanþágur ættu að vera í því tilviki. Ég heyri að sumir hafa einmitt talað um það hvort kona þurfi ekki hreinlega aðstoð við að taka þessa ákvörðun. Með því erum við líka að segja að einhver annar ætti að taka þá ákvörðun. Eigum við að skrifa það inn í lögin að það séu læknar, félagsráðgjafar svipað og er í dag? Í slíkum fyrirmælum úr löggjöfinni þyrftum við engu að síður alltaf að setja niður hvað það er sem ætti að heimila slíkt. Við gætum aldrei, held ég, afsalað slíku yfir til sérfræðinga úti í bæ án þess að vera með einhver fyrirmæli um það hvað gæti mögulega leyft slíkt.

Að öllu þessu skoðuðu þá get ég ekki séð að við værum að stíga gott skref öðruvísi en að samþykkja frumvarpið eins og það liggur fyrir eftir 3. umr.