149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[16:42]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra sem og hv. nefndarmönnum í velferðarnefnd fyrir framlag þeirra til breytingarinnar sem nú er að verða á þessum aldna lagabálki sem eftirleiðis, verði frumvarpið samþykkt, mun bera heitið lög um þungunarrof.

Mig langar að byrja mál mitt á að lesa stuttlega upp úr bréfi Sigurlaugar Benediktsdóttur, fæðingar- og kvensjúkdómalæknis, sem starfað hefur á Landspítala og í Svíþjóð síðastliðin 15 ár. Hún er sérfræðingur. Sigurlaug Benediktsdóttir ritar bréf til hv. þm. Ingu Sæland sem hafði þá farið mikinn í fjölmiðlum og ræðustól, rétt eins og í dag, gegn því frumvarpi sem við fjöllum um.

Sigurlaug Benediktsdóttir kveðst af fagmennsku og samkennd hafa reynt að mæta öllum skjólstæðingum sínum með þau ólíku vandamál sem þungun og fæðingu fylgja. Allt í því augnamiði að móðir og barn komist sem best í gegnum þetta flókna ferli sem meðganga og fæðing er.

Kveður hún langoftast allt ganga vel fyrir móður og barn en að stundum sé ekki við allt ráðið og þannig sé nú lífið. Í lífinu erum við líka misjöfn, jafnvel eins misjöfn og við erum mörg, og Sigurlaug Benediktsdóttir beinir sjónum sínum, faglegu sjónum sínum, að þeim litla hópi kvenna sem á sér engan málsvara í opinberri umræðu. Það eru þær konur sem leita á kvennadeildina eftir 16. viku þungunar og óska eftir fóstureyðingu eða þungunarrofi af félagslegum ástæðum, vegna þess að eins og lögin eru núna tekur undanþágan um þungunarrof vegna félagslegra aðstæðna aðeins til þungunar að 16 vikum.

Býr hún til dæmi út frá eigin reynslu. Ég tel, svo að það sé fært til bókar úr ræðustól Alþingis, mikilvægt að við höfum sjónarhorn hennar með. Þess vegna vil ég fjalla um þær sögur sem hún tók til. Af hverju? Vegna þess að þarna talar kona með reynslu. Þetta er fagmaður, hún er sérfræðingur. Hún talar ekki út frá tilfinningum sínum eða hjartans málum eða vinkonu sinni eða fjölskyldumeðlimum eða eigin reynslu. Hún talar sem fagmaður, kona með reynslu af alls konar konum í alls konar aðstæðum, þunguðum konum sem leita til hennar af því að hún er sérfræðingur. Hún er fæðingarlæknir. Hún er kvensjúkdómalæknir sem greinilega ann starfi sínu.

Hún lýsir 30 ára gamalli konu, tveggja barna móður með langa sögu um óreglu, áfengis- og fíkniefnaneyslu. Hún lýsir konu sem á tvo syni sem hún hefur misst forræðið yfir fyrir nokkrum árum vegna vanrækslu. Hún talar um að konan hafði verið í blandaðri neyslu alla meðgönguna og sé heimilislaus. Þessi kona hefur ekki hugmynd um hvenær hún var með síðustu blæðingar en hún gerði þungunarpróf í gær og komst að því að hún var ólétt. Við sónarskoðun kom í ljós að konan er genginn 18 vikur. Hver er framtíð hennar? Hver er framtíð þessa barns? Hver á að sjá um þessa heimilislausu konu það sem eftir er meðgöngu, sem hefur engin plön og engan vilja til að hætta fíkniefnaneyslu? Við hvaða aðstæður hefur þetta fóstur þroskast fyrstu og viðkvæmustu vikurnar í harðri neyslu móður?

Annað dæmi sem Sigurlaug Benediktsdóttir tiltekur er af 13 ára gamalli stúlku sem kemur í fylgd með 29 ára gamalli móður sinni, sem er einstæð með þrjú börn og vinnur sem kennari og er nýkomin með fasta vinnu. Móðirin hafði tekið eftir breyttu vaxtalagi hjá stúlkunni og þráfaldlega spurt hana hvort hún væri farinn að sofa hjá en stúlkan neitaði ávallt. Móðirin krafðist þess að stúlkan gerði þungunarpróf í gær sem reyndist jákvætt og við skoðun kom í ljós að stúlkan er gengin 17 vikur. Stúlkan er í grunnskóla, rétt að byrja í unglingadeild. Móðirin getur ekki fengið neitt fæðingarorlof. Það er engin slík heimild í lögum. Móðirin getur heldur ekki tekið sér langt frí frá vinnu sem hún var að byrja í, hún hefur engan rétt á því. Móðirin rétt nær endum saman með sín þrjú börn, þar af þessa ungu stúlku sem er gengin 17 vikur. Hún hefur ekkert aflögu.

Þriðja dæmið sem Sigurlaug Benediktsdóttir tekur er af 28 ára gamalli erlendri konu sem kemur til félagsráðgjafans á kvennadeild og óskar eftir þungunarrofi. Þessi kona hefur búið með ofbeldismanni síðastliðin þrjú ár. Hann hefur beitt hana grófu ofbeldi, andlegu, kynferðislegu, líkamlegu. Hún er öll marin og blá á útlimum og kroppi og hefur ekki haft sig í eða ekki komist að heiman til að óska eftir þungunarrofi fyrr en nú. Hún á enga að á Íslandi, hefur búið mjög félagslega einangruð hér á landi og ofbeldismaðurinn má alls ekki vita af þunguninni né því að hún sé stödd á kvennadeildinni. Hún veit sem er að ef hún eignast þetta barn mun hún tengjast þessum ofbeldismanni um alla tíð, sennilega mun barnið einnig þurfa að þola barsmíðar af hendi hans. Hún getur ekki hugsað sér aðra leið út úr því en að rjúfa meðgöngu og reyna að koma sér burt. Konan er gengin 20 vikur. Hver er réttur þessa barns að þurfa ekki að búa við skelfilegt ofbeldi?

Þetta eru dæmin sem Sigurlaug Benediktsdóttir, fæðingar- og kvensjúkdómalæknir, tók vegna reynslu sinnar við að starfa við þetta fag.

Já, herra forseti. Það eru þær konur sem við þurfum að hugsa um. Það að ganga með fóstur í 20 vikur er alla jafna mjög ánægjulegt og gleðilegt og fín upplifun. Það eru undantekningarnar sem við verðum að taka tillit til. Í þeim málum verðum við að hlusta á fagfólkið, fagfólk sem er með raunverulegt fólk fyrir framan sig, fagfólk sem byggir ekki frásögn sína á hvað-ef-ég-og-mitt-fólk tilfinningum heldur raunverulegu fólki, raunverulegum aðstæðum. Ég treysti Sigurlaugu Benediktsdóttur fæðingarlækni sem fagmanneskju.

Ég get sagt hér, hafandi verið lögmaður á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis í nokkur ár, hafandi starfað með konum sem hafa dvalið í Kvennaathvarfinu, hafandi starfað með konum af erlendum uppruna sem hafa þurft að flýja úr ofbeldissambandi, að ég kannast við allar sögurnar sem Sigurlaug bjó til, af því að auðvitað er læknirinn ekki að vísa í málsgögn úr málum heldur tínir dæmin til svo að ekkert sé persónurekjanlegt. Ég kannast við allar sögurnar úr störfum mínum sem lögmaður.

Ég treysti Sigurlaugu Benediktsdóttur sem fagmanneskju til að vita meira um það en við hér, sem höfum ýmiss konar bakgrunn, í hvaða aðstæðum konur geta verið.

Ég treysti líka konum til að vita sjálfar hvað er best í aðstæðum þeirra. Konur gera það ekki að gamni sínu að fara í þungunarrof en það er réttur þeirra og verður að virða skýra stöðu þeirra, þann skýra rétt sem konur hafa. Yfir 90% kvenna sem vilja rjúfa meðgöngu gera það fyrir 12. viku. Þetta er staðreynd. Viti menn, það er einnig svo í Kanada þar sem engin takmarkandi löggjöf hefur gilt um þungunarrof. Í Kanada sýnir reynslan okkur, en Kanada er mjög svipað samfélag og hér á landi, að þrátt fyrir þær víðtæku heimildir sem eru til þungunarrofs eru enn yfir 90% allra þungunarrofa framkvæmd fyrir lok 12. viku og aðeins 0,3% eftir lok 20. viku.

Hér er ég bara búin að fara yfir félagslega þáttinn. Ég er ekki búin að fara yfir þau atriði þar sem kemur í ljós tilvik um verulegt heilsufarslegt frávik. Hver er réttur barnsins þar? Hver er réttur móðurinnar á að stefna ekki lífi sínu í hættu á síðustu vikunum? Hver erum við að ætla að taka ákvörðun um það? Ég ítreka að við erum með tölur fyrir framan okkur. Ef þetta snýst um vikur fara yfir 90% í þungunarrof fyrir 12. viku. Við erum að tala um frávikin. Hvers vegna ætlum við að taka ákvörðun um frávikin, þar sem eru verulegir erfiðleikar?

Ég leyfi mér að fullyrða að engin kona leikur sér að því að ganga með eða halda áfram meðgöngu með fullri vitund í 22 vikur án þess að hugsa sig um. Það eru einmitt hin tilvikin þar sem kemur eitthvað upp í lokin eða þá eins og dæmin sem Sigurlaug Benediktsdóttir tók þar sem viðkomandi veit ekki af því og hefur enga aðstöðu til að eignast barnið og alls ekkert vitað um mögulegan þroska í móðurkviði sökum neyslu.

Mér finnst við verða að taka umræðuna út úr því að hugsa hvernig heilbrigðu börnin okkar eru, og heilbrigða meðgangan okkar og barnanna okkar. Við verðum að fara að virða þá einstaklinga sem hafa gengið í gegnum mjög mikla erfiðleika og eru í svona aðstöðu. Það eru þeir einstaklingar sem við eigum að vera að tala um, ekki þær ánægjulegu meðgöngur sem við leyfum okkur að ræða hér, öll börnin og barnabörnin okkar. Það er ekki það sem við erum að ræða. Við erum að ræða hin málin sem eru ótrúlega flókin.

Herra forseti. Ég vona að við náum að ljúka þessari umræðu án gífuryrða í framtíðinni, af því að málaflokkurinn þarf svo sannarlega ekki á þeim að halda.