149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[16:58]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir svarið. Ég túlka þessa grein öðruvísi. Ég hef alla vega allt annan skilning á því hvernig heilbrigðisstarfsfólk vinnur. Ég hef t.d. heyrt um konu sem þurft hefur að loka inni af því að hún var svo ofboðslega veik að ekki var talið að hún gæti verið ein þegar hún gengi með barn sitt því að hún gæti hugsanlega verið sjálfri sér og barninu skaðleg.

Í þessu tilviki, í 2. mgr. 10. gr., segir tekið sé tillit til fóstureyðinga sem framkvæmdar eru jafnvel eftir 16. viku meðgöngu og talað um — þá er verið að segja nákvæmlega þetta, heilsufarslega. Hver á að meta andlegt ástand? Ef okkur líður rosalega illa þá vil ég nú meina að allt sem lýtur að vanlíðan okkar hljóti að flokkast undir heilsufar. Ég er alla vega stödd þar. Ég tel að við séum þá á mjög á slæmum stað heilsufarslega séð ef okkur líður það illa andlega að við treystum okkur varla treyst til að horfa fram á næsta dag. Ég vil meina að heilbrigðiskerfi okkar hafi komið til móts við þessi jaðartilvik.

Ég hef ekki séð eina einustu skráningu, eitt einasta skráð tilvik á síðustu tveimur árum, hjá landlæknisembættinu eða nokkrum öðrum stað þar sem ég hef verið að leita eftir upplýsingum, þar sem það hefur verið gert. Ég hef ekki séð það og mér þætti afskaplega vænt um ef hv. þingmaður gæti sýnt mér eitthvað annað en það sem hugsanlega hefði getað verið og hugsanlega sé og er bara hér í formi dæmisagna. Það væri þá kannski pínulítið vandaðra og maður gæti hugsanlega litið hlutina öðrum augum og út frá öðrum sjónarhorni ef maður hefði eitthvað fast í hendi, sem í þessu tilviki, miðað við þessi jaðartilvik og dæmisögur, er bara ekki.