149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:01]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vísaði í máli mínu til þess að ég kannaðist við þær dæmisögur sem læknirinn, sem bundinn er trúnaði, býr til. Þau dæmi byggir hún á reynslu sinni. Hún byggir dæmin á raunverulegum dæmum, en eðli málsins samkvæmt getur hún ekki leyft sér að skrifa grein með raunverulegum dæmum af því að þá er hún að rjúfa trúnað. (IngS: Opinber gögn.)— Opinber gögn um fólk? (Gripið fram í.) Hún (Gripið fram í.) getur að sjálfsögðu ekki birt opinber gögn um persónulega reynslu einstaklinga sem koma fyrir framan hana, ekki frekar … (Gripið fram í.)— Fyrirgefðu, forseti, er ég með orðið eða …? (Forseti hringir.)

(Forseti (BN): Ég bið hv. þingmenn að grípa ekki fram í og leyfa ræðumanninum að klára.)

Þakka þér fyrir.

Ég, sem áður starfandi lögmaður kvenna í mjög erfiðum aðstæðum, get heldur ekki komið hingað með staðfestar sögur, raunveruleg dæmi, vegna þess að siðareglur lögmanna leyfa það ekki. Þá er ég að rjúfa trúnað. Hv. þingmaður getur ráðið því hvort hún trúir frásögn minni eða ekki.

Nú er það svo að barnaverndarlög leyfa það að móðir sem gengur með barn sé lokuð inni vegna þess að hún geti mögulega skaðað fóstrið. Barnaverndarlög leyfa það. Það er ekkert í þessum lögum sem leyfir slíkt. Þessi lög, þetta ákvæði, 10. gr., tekur ekki á svona félagslegum vanda og ekki er hægt að rannsaka það í móðurkviði hvaða þroskaskerðing hefur orðið á fóstri konu sem er í harðri neyslu vikum saman.