149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Mig langar að spyrja hana, af því að nú erum við búin að heyra mikið af tölum, 16, 18, 20, 22 vikur: Rökin sem hafa komið fram hérna, gilda þau ekki líka miðað við það sem hv. þingmaður hefur sagt? Hún tók Kanada sem dæmi þar sem eru engar hömlur. Þóknast henni fóstureyðingar fram á síðasta dag? Gilda rökin um einstöku tilfellin þá ekki líka eftir 22. viku? Eða stoppa þau þar?

Síðan langar mig líka að vita í sambandi við fötlun eða ef eitthvað er að fóstrinu. Læknir upplýsir konu um að eitthvað sé að, tilgreinir nákvæmlega hvað er að eða bara reiknar með því að eitthvað sé að fóstri og ráðleggur fóstureyðingu. Viðkomandi kona fer í fóstureyðingu og svo kemur í ljós að það er ekkert rannsakað hvort það sem læknirinn sagði að væri að eða ekki. Það eru engar skýrslur og ekki neinar rannsóknir gerðar á því, til að fylgjast með. Í þeim tilfellum sem við erum að tala um eru 1.040 fóstureyðingar á ári, á síðasta ári, 40 af læknisfræðilegum ástæðum. Það er ekki skráð á neinn hátt hvort það var rétt eða rangt. Finnst henni það eðlilegt? Er ekki lágmarkskrafa ef opinber starfsmaður, eins og læknir, fullyrðir að eitthvað sé að og viðkomandi trúir að það sé þá sannreynt?