149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:10]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir seinna andsvar. Mér láðist að svara þeirri spurningu hvort ekki sé nauðsynlegt af fá staðfestingu á því eftir að þungunarrof hefur verið framkvæmt ef læknir hefur sagt við skoðun að eitthvað kunni að vera að. Í rauninni á maður ekki að spyrja þann sem er með andsvar og þaðan af síður í seinna andsvari en ég sendi þetta bara út í loftið: Fyrir hvern er það? Hvað á kona að gera við þær upplýsingar eftir að þungunarrof hefur átt sér stað og ákvörðun verið tekin um það af læknisfræðilegum ástæðum, vegna þess að tveir læknar hafa ráðlagt það og sagt að yfirgnæfandi líkur séu á verulegum skaða á fóstri, sem kemur svo í ljós að hefur mögulega ekki verið jafn alvarlegur og litið var á eða eitthvað slíkt? Hvað á kona að gera við slíkar upplýsingar eftir á? Fyrir hvern og í þágu hvers eru slíkar upplýsingar? Mig langar að biðja fólk að íhuga það.

Varðandi siðferðislegu kröfurnar spyr ég líka: Eru ekki alveg sömu siðferðislegu kröfur varðandi 2, 4, 6, 8, 10 vikna fóstur, 12, 14, 16? Erum við ekki bara stödd þar? Ber ekki konunni að a.m.k. eiga samtal við manninn sinn um þetta og hvernig ætlum við að finna út úr því að það samtal hafi átt sér stað? Ætlum við að setja á laggirnar umræðulögreglu sem fer inn á heimili og staðfestir að hjón hafi rætt saman? Hver ætlar að kvitta upp á að kona hafi rætt við karl eða einhvern mann úti í bæ um þetta ástand og þá ákvörðun sína? Ég er ekki viss um (Forseti hringir.) að við séum á alveg réttum stað með þetta.