149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:27]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef margt við ræðu hv. þingmanns að athuga en ætla að halda mig við eina athugasemd sem hv. þingmaður kom með og sneri að þeim hluta frumvarpsins er veitir stúlkum undir 18 ára aldri heimild til þungunarrofs án samráðs við foreldra. Hv. þingmaður spurði hvort foreldrar bæru ekki ábyrgð á börnum sínum og hafði áhyggjur af þessu frumvarpi.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvernig hann sjái fyrir sér að aðkomu foreldra væri best háttað og hvernig staðið yrði að ákvarðanatöku ef foreldrum og ólögráða stúlku bæri ekki saman um ákvörðun um þungunarrof.

Ég ætla að setja upp dæmi. Gefum okkur að 13 ára stúlka sé þunguð og vilji fara í þungunarrof á 6. viku meðgöngu, svo við förum ekki alla leiðina að fæðingardegi eins og hv. þingmaður hefur verið að fabúlera um í einhverjum hliðarraunveruleika í ræðum sínum hér í dag og á öðrum dögum. Við horfum fram á að 13 ára stúlkubarn vill rjúfa þungun en pabbi hennar er ósammála henni og vill að hún gangi með barnið. Hvernig leggur hv. þingmaður til að heilbrigðisstarfsmenn skeri úr um hver eigi að fá að ráða yfir líkama þessa stúlkubarns?