149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:30]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er jákvætt að heyra að hv. þingmaður styður þó að endanleg ákvörðun liggi hjá 13 ára stúlku sem ekki vill ganga með barn til fullnustu. En ég spyr mig enn þá hvernig hann sjái fyrir sér að framkvæma þau fyrirmæli að foreldrar eigi að hafa aðkomu að þessari ákvörðun. Auðvitað væri eðlilegt að foreldrar veittu börnum sínum stuðning í þessum aðstæðum. En hvernig leggur hv. þingmaður til að löggjöfin geri ráð fyrir því að skylda stuðning?

Ef við gefum okkur að um sifjaspell hafi verið að ræða — hvernig á að taka á löggjöfinni gagnvart því? Hvernig ætlar löggjafinn að fyrirskipa þetta?

Og þetta leiðir mig kannski að því sem ég hef líka veitt athygli í málflutningi hv. þingmanns þegar hann talar um aðkomu karlsins að ákvörðun konunnar. Hvernig ætlar löggjafinn að ákveða það? Hvernig ætlar hann að skylda samtal á milli einstaklinga sem hafa átt í nánum kynnum eða eru bundnir fjölskylduböndum? Er það ekki bara á þeirra borði? Hljóta þessar stelpur ekki að ákveða hvort þær vilja ræða við foreldra sína og konurnar ákveða hvort þær vilji ræða við maka sína eða hjásvæfur?