149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:36]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held nú að þingmaðurinn þurfi engu að vísa til föðurhúsanna því að ég benti einmitt á að hann hefði ekki verið sofandi á þessum fundi, sem endurspeglast í því að hann stóð að afgreiðslu málsins, vitandi vits, eins og við hin. Þetta dæmi sem hann nefnir kom fram í umsögnum. Þetta er bara eitt af því sem við vorum búin að taka afstöðu til.

Þannig að enn er ekki komin fram nein málefnaleg ástæða til þess að taka málið til einhverrar frekari umfjöllunar í nefndinni. Því að við erum ekkert að taka inn gesti „af því bara“. Þegar við ákveðum fyrir 2. umr. að afgreiða málið, að það sé fullrannsakað frá nefndinni, felst í því sú ákvörðun að við setjum punkt aftan við það sem þegar er skeð.

Og ef þingmaðurinn skiptir um skoðun og sér eftir því að hafa samþykkt málið út til 2. umr. er það allt önnur Ella og snýst ekki um málefnalega meðferð málsins.