149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:39]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er tvennt sem mig langaði að spyrja hv. þingmann út í. Annars vegar þetta með af hverju hafi ekki mátt ræða þetta betur. Nú er ég ekki í þessari nefnd en ég skil það sem svo að hv. þingmaður hafi samþykkt að málið yrði tekið út úr nefndinni og færi til 2. umr. Það er vaninn eftir gestakomur að mál séu afgreidd út úr nefnd með nefndarálitum og komi hingað inn í sal.

Ég átta mig ekki alveg á því hvað gerðist hér í þingsal í millitíðinni, eftir allar gestakomurnar, af hverju núna, eftir að hv. þingmaður samþykkti að málið yrði tekið út, er farið að tala um að hann sjái eftir því að hafa samþykkt að málið yrði tekið út úr nefnd.

Hitt atriðið sem ég hnaut um var að hv. þingmaður vísar í eina umsögn, Guðmundar Pálssonar, sérfræðings í heimilislækningum, sem veitir neikvæða umsögn um þetta frumvarp. En ef við erum farin að tala um sérfræðinga veltir maður fyrir sér: Hvað með umsögn Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna sem fagna frumvarpinu? Það eru þeir fagaðilar sem koma einmitt að þessum málum í öllum tilvikum. Því að kona fer ekki í þungunarrof hjá heimilislækninum sínum. Það er engin heimild fyrir því.

Þá veltir maður fyrir sér: Ef við ætlum að fara að styðjast við sérfræðinga, eigum við þá ekki að styðjast við sérfræðinga í þessu fagi?