149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:41]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ef við tökum þetta mál eins og það var í velferðarnefndinni þá fór málið í 2. umr. hér og síðan til velferðarnefndar. Þar óskaði ég eftir að fá að kalla til fleiri gesti og ræða málið betur og ég samþykkti ekki afgreiðslu málsins þaðan út aftur fyrr en ég hefði fengið þessa umræðu. Þess vegna lét ég bóka að ég væri ekki sáttur við að málið færi inn í þingsal aftur vegna þess að ég fékk ekki að kalla til þá sem ég vildi og ræða málið betur. Það var það eina sem ég bað um.

Ég skil ekki hvers vegna í ósköpunum það er svona rosalega erfitt að viðurkenna að ekki hafi vaknað upp ýmsar spurningar við 2. umr. sem þörf var á að spyrja þegar málið er komið inn til velferðarnefndar eftir þá umræðu. Ætlar þingmaðurinn og þingmenn virkilega að segja mér að það hafi aldrei í sögu þingsins verið kallað inn og rætt um mál eftir 2. umr., eftir að mál fer aftur í nefnd, ef einhverjar spurningar hafa vaknað? Þá veð ég bara greinilega í einhverri villu ef svo er.

Það voru yfir 60 umsagnir sem komu inn, bæði jákvæðar og neikvæðar, en það voru miklu fleiri neikvæðar en jákvæðar. Það held ég að hafi snúist sérstaklega um þennan langa tíma, 22 vikur.