149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:43]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Fyrst aðeins varðandi meðferðina inni í nefndinni. Það þekkist alveg að gestir komi fyrir nefnd milli 2. og 3. umr. Það gerðist bara á síðasta ári, man ég, í einu máli sem var fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það var haldinn skyndifundur í þinghúsinu, meira að segja, þar sem kallaðir voru til gestir. En eftir því sem mér skilst á umræðunni hér í dag var einfaldlega óskað eftir viðbrögðum annarra nefndarmanna við beiðni um að fá sama gestinn aftur fyrir nefndina sem átti að upplýsa um eitthvað sem var búið að upplýsa og það var einfaldlega fellt. Það heitir því miður lýðræði þegar greidd eru atkvæði um hvort það eigi að taka mál aftur út úr nefnd. Stundum þarf maður bara einhvern veginn að lúta því, blessaða lýðræðinu, sem stundum hrekkir mann og stundum ekki. Það fer eftir því hvort maður er samþykkur eða ekki.

En varðandi umsagnir þá renndi ég yfir þær og las þær flestar (Forseti hringir.) og sá að það eru nú ekki margir sérfræðingar þarna. Fólk er nú meira að (Forseti hringir.) senda umsögn svona út frá sínum tilfinningum.