149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:46]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Við erum stödd í 3. umr. um frumvarp um þungunarrof. Hér hefur gengið á ýmsu í meðförum málsins og þess vegna finn ég mig knúna til að árétta enn og aftur að núgildandi löggjöf, frá árinu 1975, gerir ráð fyrir því að konur geti farið í þungunarrof fram að 22. viku að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Það sem verið er að breyta með frumvarpinu er að nú þarf ekki lengur nefnd sérfræðinga til að samþykkja að slík skilyrði séu til staðar og að konur, sama á hvaða stigi, á hvaða viku meðgöngunnar þær kjósa að rjúfa meðgönguna, fái ákvörðunarréttinn sem er sem stendur formlega hjá félagsfræðingi og lækni á vegum ríkisins.

Þess vegna er verið að tala um sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama jafn títt og mikið og hefur verið gert við umræðuna, vegna þess að hið lagalega umhverfi í dag virðir ekki sjálfsákvörðunarrétt kvenna heldur leggur það í hendur embættismanna að ákveða fyrir hönd þeirra hvort þær megi fá þá heilbrigðisþjónustu sem þungunarrof sannarlega er.

Núgildandi lög gera ráð fyrir að kona geti farið í þungunarrof fram að 22. viku, eftir 16. viku meðgöngu ef um ákveðin undanþágutilfelli er að ræða. Þau undanþágutilfelli snúa að því ef lífi eða heilsu móður er stefnt í voða með áframhaldandi meðgöngu, ef fóstur telst ekki lífvænlegt til frambúðar eða ef fóstur er talið mjög alvarlega fatlað.

Til þess að kona geti fengið þungunarrof á þeim tímapunkti, að þeim skilyrðum uppfylltum, þarf nefnd að úrskurða um hvort skilyrðin séu uppfyllt. Það sem verið er að breyta núna er að það verði undir konunni komið hvort hún vill fara í þungunarrof, allt fram að 22. viku, eða ekki.

Kosturinn við að færa þetta ákvörðunarvald í hendur konunnar, burt séð frá trú okkar á sjálfsákvörðunarrétti kvenna, er sá að það fjarlægir ákveðna beina mismunun gegn fötluðu fólki úr lögunum þar sem það er ein regla sem segir að ekki megi fara í þungunarrof eftir 16. viku meðgöngu. Ein af undanþágunum frá þeirri reglu er ef fóstur er talið alvarlega fatlað. Undanþágan frá almennu reglunni er sem sagt sú að ef um alvarlega fatlað fóstur er að ræða má fara í þungunarrof eftir 16. viku.

Þetta er löggjöfin eins og hún er í dag. Þetta er mismunun gegn fötluðu fólki.

Þessi breyting kemur til móts við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem við höfum fullgilt. Það er einn kostur.

Annar kosturinn er sá að hægt verður að koma til móts við þau tilfelli sem snúa að mjög erfiðum félagslegum aðstæðum kvenna sem þurfa á þungunarrofi að halda eftir 16. viku meðgöngu, t.d. ef um er að ræða mjög ungar stúlkur sem treysta sér ekki til að segja frá þungun sinni fyrr en mjög langt er liðið á hana eða vita jafnvel ekki af henni, konur sem eru í mikilli vímuefnaneyslu, konur sem hafa orðið fyrir heimilisofbeldi, konur eða stúlkur sem hafa orðið fyrir sifjaspelli eða nauðgun, ýmis tilfelli, mjög erfið tilfelli, sem lögin í dag ná ekki utan um. Einu undanþágurnar sem gilda í dag eftir 16. viku meðgöngu snúa að því að fóstur sé talið alvarlega fatlað, að lífi eða heilsu móður sé stefnt í voða eða að fóstur teljist ekki lífvænlegt til frambúðar.

Það sem við erum að gera með lögunum er einfaldlega að treysta konum fyrir þessari ákvörðun, að þær fái að taka hana sjálfar og þurfi ekki frekar en þær vilja, því að þær hafa vissulega heimild til að leita sér ráðgjafar, að fá samþykki heilbrigðisstarfsmanna eða annarra fyrir ákvörðun sinni um sig og líkama sinn.

Lögin okkar eins og þau eru núna gera sem sagt ekki ráð fyrir því að konur sem eru í mjög erfiðum félagslegum aðstæðum geti farið í þungunarrof þegar komið er fram yfir 16. viku meðgöngu. Það er eitt.

Ef af því verður sem sumir hv. þingmenn leggja til, að vikufjöldinn verði færður niður í 20 vikur, útilokast sá möguleiki að konur geti farið í þungunarrof eftir 20 vikna sónar þegar í ljós kemur að fóstur er t.d. alvarlega fatlað. Sumum hv. þingmönnum kann mögulega að finnast það allt í lagi og vilja neyða konur til þess að ganga með alvarlega fötluð börn — og þar með þrengja valkosti kvenna miðað við hvernig þeir eru í dag — en ég er innilega mótfallin því.

Ég bið þá hv. þingmenn að íhuga dæmi um fjögurra barna einstæða móður sem fær þær fréttir að hún sé þunguð af mjög alvarlega fötluðu barni sem muni þurfa mjög mikla umönnun allt sitt líf og muni taka frá henni marga vinnudaga sem hún hefði annars notað til að ala önn fyrir núlifandi fjórum börnum sínum.

Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmönnum finnist um þau börn og hvort þeir hugsi um þau börn með breytingartillögu sinni, vegna þess að með henni er verið að fjarlægja þann möguleika.

Ég vil halda því til haga að miðað við núgildandi löggjöf — og þannig er það almennt í heiminum þar sem löggjöf er frjálslyndari en okkar — fara 95% kvenna í þungunarrof fyrir 12. viku meðgöngu. Það er yfirgnæfandi meiri hluti þeirra. Hv. þingmenn láta eins og það verði einhver gríðarleg breyting á því ef við færum ákvörðunarvaldið frá heilbrigðisstarfsmönnum og til kvennanna sjálfra.

Það heldur hins vegar engu vatni, herra forseti, vegna þess að það er enginn tilgangur með því. Það er ekki gáfulegt, það er ekki skynsamlegt, það er ekki á nokkurn hátt sniðugt að bíða með að fara í þungunarrof þegar um miklu minna inngrip og truflun í lífi konu er að ræða ef hún fer í þungunarrof fyrir 12. viku meðgöngu, eins og þær vita vel sjálfar.

Hins vegar þarf að vera rými fyrir það að konur geti nýtt sér þungunarrof eftir þann tíma vegna ýmissa ástæðna sem þær geta best metið sjálfar. Þess vegna erum við að færa ákvörðunarvaldið til kvennanna.

Ég hef setið og fylgst með umræðunum alveg frá upphafi og ég var hér í dag þegar þó nokkrir hv. þingmenn komu hingað upp og fór að tala um sátt, að við þyrftum meiri tíma til að ná meiri sátt um þetta mál. Þegar kemur að sátt hefur einna helst verið talað um vikufjöldann. Hann hefur verið ræddur fram og til baka, bæði í þeim tveimur umræðum sem hafa farið fram í þingsal fram að 3. umr. sem og í þessari 3. umr. og einnig í hv. velferðarnefnd í meðferð málsins.

Ég velti fyrir mér hvers konar sátt hv. þingmenn eru að kalla eftir og hversu einlægir þeir séu í sáttamiðlun sinni. Ef ég væri að tala um að ná sátt um ákveðið mál myndi ég kannski vilja hlusta á sjónarmið þeirra sem eru ósammála mér og hugsanlega nota rétt minn til að koma upp í ræðustól og fara í andsvör við þá sem eru ósammála mér og spyrja þá hvers vegna, á hvaða grunni og með hvaða rökum þeir væru ósammála mér. Þetta á hins vegar ekki við um hv. flutningsmann breytingartillögunnar, hv. þm. Pál Magnússon, sem tók ekki þátt í 1. umr. um þetta mál, hefur ekki farið í eina einustu andsvarsræðu í allri umræðunni, fyrir utan að svara andsvörum við eigin ræðu, og hefur bara haldið eina ræðu um þetta mál í 2. umr.

Þeir hafa ekki verið í þessum sal og tekið þátt í umræðum um þetta mál, ekki í 1. umr., ekki í 2. umr. og ég sé þá ekki núna í 3. umr. Þeir hv. þingmenn, sem fannst svo mikilvægt að þetta mál fengi meiri tíma, meiri umræðu og að það myndaðist meiri sátt um það, eru ekki hér að taka þátt í umræðum um málið, hvorki hv. þm. Óli Björn Kárason né hv. þm. Páll Magnússon, sem báðir vilja ná einhvers konar sátt í málinu.

Ég velti fyrir mér út á hvað sú sáttamiðlun gengur ef það er ekki einmitt að ræða málið á málefnalegum grunni við þá hv. þingmenn sem eru ósammála, til að fá fram þá mikilvægu umræðu sem þeir telja að þurfi lengri tíma og meiri tíma í þinginu. Ég skil ekki alveg hvers konar sátt þeir miða að með slíkri framkomu.

Herra forseti. Að lokum finnst mér mikilvægt að ræða þau sjónarmið sem hafa komið fram í umræðum um þetta mál frá hv. þingmönnum sem telja að karlmenn ættu að hafa aðkomu að þessari ákvörðun á einhvern hátt, að það eigi að spyrja þá álits þótt ekki eigi endilega neyða konur til neins. Það hefur verið lítið um svör þegar ég hef spurt hv. þingmenn hvernig þeir sjái fyrir sér að framfylgja aðkomu karla að ákvörðun kvenna um þungunarrof, hvort hugsanlega eigi að draga þær með lögregluvaldi og tryggja að þær fari ekki í þungunarrof ef maðurinn er ósammála því eða draga þær með lögregluvaldi og tryggja að þær fari í þungunarrof ef karlinum finnst að þær eigi að gera það, eða hver eigi að ráða.

Það er eins og að það þurfi löggjafa til að segja fólkinu í landinu að eiga eðlileg samskipti, að tala saman um lífið og tilveruna og mögulega hvort það eigi að binda endi á þungun eða ekki. Þurfum við löggjafann til að segja okkur það? Hvernig á löggjafinn að segja okkur það? Og hver á að ráða í því samhengi ef það er ekki konan og ef karlinn á að hafa aðkomu og ef það á einhvern veginn að snúa að jafnrétti? Hvers konar jafnrétti er það? Og hvernig á löggjafinn að fyrirskipa það? Ég sé það ekki alveg fyrir mér. Hvernig á að framfylgja því að karlinn hafi aðkomu að þessu?

Er ekki bara frekar eðlilegt að konur tali við karla um hvort þær ætli þungunarrof eða ekki? Eigum við að neyða þær til að gera það? Hvernig ætlum við að neyða þær til að gera það? Þurfum við að fá uppákvittað hjá manninum áður en kona fer í þungunarrof að honum hafi verið tilkynnt um aðgerðina til að konur fái að fara í hana?

Hvernig ætla hv. þingmenn að framfylgja þeim vilja sínum að karlar hafi aðkomu að þessum ákvörðunum kvenna? Hvernig vilja þeir gera það? Ég hef ekki fengið skýr svör við því. Ég skil ekki hvernig á að setja það í regluverk eða framkvæma án þess að við förum inn í einhverja dystópíska samfélagsmynd sem ég kæri mig ekki um að taka þátt í.

Herra forseti. Að allra síðustu vil ég taka fram að þeir hv. þingmenn sem tala fyrir breytingartillögunni um 20 vikur eru með henni að neyða konur sem ekki vilja ganga með alvarlega fötluð börn til að gera það, óháð aðstöðu sinni, algerlega óháð henni. Þeir vilja neyða börn til að ganga með börn ef komið er fram yfir 20. viku þegar upp kemst um þungun. Þetta er það sem þeir hv. þingmenn vilja gera og þeir ættu að vera hreinskilnari með þær fyrirætlanir sínar.