149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:01]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir ræðuna. Það er margt sem ég átta mig ekki alveg á og mér finnst kenna ákveðinna mótsagna. Það hefur ítrekað verið sagt í þessum ræðustóli að ekki sé verið að breyta neinu í sambandi við núgildandi löggjöf hvað varðar 22. viku. Á sama tíma er verið að tala um 16 vikur og nú er á einum stað verið að tala um réttindi fatlaðs fólks. En svo er talað um 20 vikurnar, að þær komi í veg fyrir að hægt sé að eyða þessu fatlaða fólki. Hvar eru mörkin hv. þingmaður? Eru það 22 vikur? Eru það 16 vikur í núgildandi löggjöf? Hvers vegna heyri ég stundum að þessi aðgerð sé í raun leyfileg við 22. viku? Ég hef skilið það þannig, í 2. mgr. 10. gr., að ef fóstureyðing kemur til eftir 16. viku þurfi að vera skýr heimild fyrir því — ég hef áttað mig á að þið vilduð gjarnan hafa ákvörðunina alfarið hjá konunni sjálfri, að hún eigi bara ein að sjá um það að taka þá ákvörðun.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvar kemur það fram í löggjöfinni, eins og hv. þingmaður sagði í upphafi ræðu sinnar, með þessar 22 vikur? Ég finn það bara ekki, það er greinilega minn akkillesarhæll. Og svo annað: Hvenær er það í raun sem hv. þingmaður telur rétt að svipta konuna sjálfsákvörðunarrétti um sína þungun? Er það þá við 22. viku? Er hún þá hætt að geta nýtt sér þennan margumtalaða sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstæði yfir eigin líkama?