149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:10]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður talar mikið um að ein af hverjum fimm þungunum sé rofin á Íslandi að meðaltali. Mig langar að sama skapi að minna hv. þingmann á að ein af hverjum fjórum konum hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi á ævinni, bara svona til að hafa það til hliðsjónar.

Ég velti fyrir mér hvort hann vilji fá upplýsingar frá þeim konum sem fara í þungunarrof, hvort þeim hafi verið nauðgað og hvort þeim finnist það nauðsynlegt til að réttlæta það að fara í þungunarrof. Er nauðsynlegt að þær segi hv. þingmanni að þær eigi almennt við mjög vonda heilsu að stríða og viti bara sjálfar að þungun muni fara mjög illa með þær og það muni því ekki verða skráð sem eitthvert sérstakt læknisfræðilegt fyrirbrigði heldur nýti konur sér rétt sinn til að fara í þungunarrof? Þurfa þær líka að láta hv. þingmann vita að þetta hafi verið ástæðurnar að baki þess?

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður spyrji sig ekki, eins og ég hef spurt hann svo oft, hvernig löggjafinn eigi að fyrirskipa aðkomu eiginmannsins, eins og hann nefnir, í þessu máli. Hvernig á löggjafinn að fyrirskipa það? Hvernig á löggjafinn að framkvæma það? Hvernig á að tryggja það að maðurinn hafi einhvers konar aðkomu að þessu? Og hvernig eigum við að hafa undanþágurnar, ef um er að ræða eiginmann sem beitir heimilisofbeldi og nauðgunum, og ég veit ekki hverju? Hvernig ætti að meta það? Af hverju þurfum við að setja það inn í löggjöfina?

Finnst hv. þingmanni í alvörunni tilefni til þess að löggjafinn skipti sér af heimilismálefnum fólks og hvernig hjón tala saman og hvort þau geri það? Og hvernig ætlar hv. þingmaður að framfylgja því að karlinn sé látinn vita, að hann hafi einhverja aðkomu að málinu? Hvernig sér hann fyrir sér löggjöf sem fyrirskipar það? Hvernig ætlar hann að gera það? Vegna þess að ef hann hefur einhverja hugmynd má hann endilega að upplýsa mig um hana.