149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:30]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann fór mjög vel yfir þetta mál. Það sem ég hjó aðallega eftir var þetta um 5. gr. Hann er eiginlega að mælast til að það verði sett einhvers staðar annars staðar í lög að styðja við börn sem verða ófrísk og þurfa að fara í fóstureyðingu.

Ég vil spyrja: Hefði ekki verið eðlilegra að við hefðum sett þarna inn einhverja varnagla? Ég spyr mig nefnilega á þeim grundvelli að foreldrar bera ábyrgð á barni til 18 ára aldurs og þá verður barnið sjálfráða og getur tekið þessa sjálfstæðu ákvörðun. En fram að þeim tíma finnst mér mjög undarlegt að við leggjum á herðar barns að taka þessa ákvörðun án vitneskju foreldra sinna og án þess að ræða yfir höfuð við þau, sem mér finnst alveg skelfileg tilhugsun. Ég get ekki ímyndað mér skelfingu barns í þessari aðstöðu — en ég get ekki heldur ímyndað hver skelfing þess verður ef það einhverra hluta vegna óttast svo foreldra sína að það geti ekki talað við þau. Ég held að það sé bara í undantekningartilfellum. Mér finnst einhvern veginn að þarna hefðum við átt að vanda okkur aðeins betur.

Er þingmaðurinn sammála mér í því?