149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:33]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Jú, ég get alveg tekið undir það og ég vona að það verði sett þar en ég hefði viljað hafa það hérna.

En svo er annað sem mig langar að spyrja hann um. Erum við ekki að skera okkur svolítið úr miðað við Norðurlöndin með þessu frumvarpi? Erum við ekki að ganga lengra en öll hin Norðurlöndin í þessu málefni? Er eðlilegt að við tökum þetta upp? Eins og ég segi tel ég að við hefðum átt að taka aðeins varfærnari skref. Ég get kannski alveg uppfært reynslu mína af þinginu, því nú hef ég ekki verið hérna nema í rétt rúmt ár, af meðferð mála í nefndum og annað. Maður er að læra og þarf að læra hratt. En ég tel mig hafa reynt mitt besta að koma að þessu máli á heiðarlegan hátt og reyna að sjá öll sjónarmið í þessu máli.

Það sem stingur mig mest er hvað þetta er hrikalega erfitt mál. Ég get ekki ímyndað mér hversu erfitt þetta hlýtur að vera fyrir þá aðila sem standa í slíkum málum, fullorðið fólk og hvað þá ef barn lendir í þessari aðstöðu. Þess vegna segi ég að það þarf alveg pottþétt, hvort sem það er barn eða fullvaxta kona, rosalegan stuðning. Vegna þess að þetta er grafalvarlegt mál. Ég furða mig á því að við skerum okkur úr meðal Norðurlanda og hvort það hefði ekki verið eðlilegt að við hefðum verið á svipuðum slóðum og Norðurlöndin eru í þessu máli.