149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:37]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Hér í 3. umr. um þetta mál sem hér er rætt, þungunarrof eða fóstureyðingar, langar mig að hnykkja á nokkrum atriðum sem ég kom inn á í ræðu minni við 2. umr. og velta upp sjónarmiðum sem ég hef bætt við síðan og tel ástæðu til að komi fram hér við þessa umræðu.

Ég held að eftir hörð orðaskipti um fundarstjórn forseta fyrr í dag þurfi engum að dyljast að þetta sé sennilega með snúnari málum sem þingið hefur fengið til sín síðustu misserin, fyrst og fremst út frá siðferðislegum sjónarmiðum. Eins og menn urðu varir við fyrr í dag kastaðist hressilega í kekki og má eiginlega segja að hitinn sem er undir niðri í þessu máli hafi fyrst komist í gegn í dag. Ég held að þau snörpu orðaskipti sem urðu hér undir liðnum fundarstjórn forseta fyrr í dag kristalli að nokkru marki hversu heit sjónarmiðin eru sitt hvorum megin í þessu máli og þá kannski sérstaklega í þeim hópi sem hefur áhyggjur af því hversu langt er verið að ganga hérna.

Mig langar í þessu samhengi að koma stuttlega inn á ágætis álit biskups Íslands, séra Agnesar M. Sigurðardóttur, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Samfélag okkar hefur á undanförnum áratugum fundið jafnvægi á milli hinna ólíku sjónarmiða um rétt hinnar verðandi móður yfir eigin líkama og rétt fósturs til lífs, þrátt fyrir þær mótsagnir sem því fylgir.“

Svo heldur biskup áfram:

„Hinar nýju tillögur raska því jafnvægi og vekja jafnvel upp á ný grundvallarspurningar, sem við ættum auðvitað alltaf að spyrja okkur varðandi mannhelgina og framgang lífs hér í heimi.“

Ég held að þetta sé algjört kjarnaatriði í þessu máli, þ.e. að með því hvernig málið liggur núna — og allt bendir til þess að það verði afgreitt hér strax eftir helgi — er verið að rjúfa þessa sátt. Það er ekkert einfalt að ná sátt í samfélaginu um það hvernig skuli halda á málum sem þessum. Ég held að okkur hafi tekist ágætlega til hingað til. En núna verður því miður rof þar á, eins og biskup Íslands bendir réttilega á. Nú er þetta jafnvægi fyrir bí. Það held ég að öllum sem horfa á þetta sanngjörnum, ballanseruðum augum hljóti að finnast miður í jafn viðkvæmum málaflokki og hér er undir.

Mig langar jafnframt að koma stuttlega inn á sjónarmið sem komu fram hjá fyrrverandi þingkonu Samfylkingarinnar, Ólínu Þorvarðardóttur, í umsögn sem hún sendi inn til velferðarnefndar og ég vil bara fá að vitna í niðurlagsorð hennar, með leyfi forseta:

„Að óbreyttu reynir þetta frumvarp mjög á siðferðislegt þanþol þeirra sem að málum þessum koma, ekki aðeins heilbrigðisstarfsfólks heldur allra sem láta sig málið varða. Fari frumvarpið óbreytt í gegn er hætt við því að sú sátt sem hefur verið um fóstureyðingar á Íslandi sé rofin. Það yrði óbætanlegur skaði fyrir íslensk kvenréttindi og mannréttindi í víðara samhengi.“

Miðað við það sem Ólína Þorvarðardóttir kemur inn á í umsögn sinni eru auðvitað fleiri sem koma að þessum málum en verðandi móðir, faðir og fleiri. Það eru þarna heilbrigðisstarfsmenn sem, eins og kemur fram í umsögn Ólínu Þorvarðardóttur, verða settir í þá stöðu, að óbreyttu, að reyni mjög á siðferðislegt þanþol.

Það er auðvitað mjög sérstök staða fyrir heilbrigðisstarfsmann að vera í að horfa til þess að fóstur sem vex í móðurkviði til loka 22. viku sé í þeirri stöðu, gagnvart lagaverkinu, að ákvörðun um að enda líf þess geti verið tekin til loka 22. viku og að það verði hlutverk og verkefni þessara heilbrigðisstarfsmanna að framkvæma þá aðgerð, en síðan nokkrum klukkustundum seinna, við upphaf 23. viku — þetta gerist bara á nokkrum mínútum — er staðan orðin sú að sömu heilbrigðisstarfsmenn eiga að gera allt sem í þeirra valdi og vísindanna stendur til að bjarga þessu sama barni.

Það er eitthvað í þessu máli öllu sem ég næ ekki utan um, sem snýr að því að meiri hluti þingsins að því er virðist, vilji fara alveg upp að þessum mörkum, upp að þeim mörkum að fóstur sé orðið lífvænlegt utan móðurlíkama. Þá er auðvitað orðinn til staðar einstaklingur í móðurkviði. Það að meiri hluti Alþingis vilji horfa til þess að það sé skurðpunkturinn, að það megi fara alveg upp á dag upp að þeim mörkum að barnið sé lífvænlegt utan móðurkviðar — ég held að þar sé verið að reyna á þanþol allra sem að þessu koma. Mér finnst mjög miður að við séum að öllum líkindum að sigla málinu í þann farveg að það verði niðurstaðan.

Ég hef fylgst býsna vel með umræðunni, leyfi ég mér að fullyrða, en a.m.k. veitti ég því ekki athygli að um það væri fjallað að þessar breytingar kölluðu á breytingu á öðrum lögum eða reglum sem við vinnum eftir hér á landi.

Ég velti fyrir mér, þó að það sé auðvitað seint fram komið, en hv. fulltrúar í velferðarnefnd eru nú hér í salnum, hvort það hafi verið skoðað hvort þessi sjónarmið sem þingmenn vilja ramma inn með þeirri lagasetningu sem nú er hér til meðferðar, og hvort þau rök sem þar koma fram kalli á breytingu á öðrum lögum. Mig langar bara sem dæmi að nefna barnaverndarlög, og þetta er ekki eftir mjög ígrundaða skoðun en það væri áhugavert að heyra hvort þetta hafi verið rætt í velferðarnefndinni.

Í barnaverndarlögum segir í 16. gr., sem ber yfirskriftina Tilkynningarskylda almennings, með leyfi forseta:

„Þá er hverjum manni skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart ef ástæða er til að ætla að heilsu eða lífi ófædds barns sé stefnt í hættu með óviðunandi eða háskalegu líferni þungaðrar konu.“

Þarna er ekki talað um að það sé krafa að barn sé orðið lífvænlegt utan líkama móður. Menn hafa ekki séð neina ástæðu til að tengja þetta tvennt saman. Þarna er bara lögð fortakslaus skylda á íslenskra borgara. Aftur, með leyfi forseta:

Að „hverjum manni skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart ef ástæða er til að ætla að heilsu eða lífi ófædds barns sé stefnt í hættu með óviðunandi eða háskalegu líferni þungaðrar konu.“

Engar 22 vikur. Engar 23 vikur. Þetta er bara skilyrðislaus skylda sem okkur er uppálögð til varnar því lífi sem vex í móðurkviði.

Annað atriði sem mig langaði til að nefna í þessu samhengi eru reglur er snúa að geislaálagi. Það er þannig að geislaálag er mælt í svokölluðum millisíverum. Almennt er viðmiðið að menn þoli mælieininguna einn. Geislastéttir, sem sagt fólk sem starfar í slíku umhverfi, megi þola það að vinna þar sem mælieiningin nær þriðja stigi og flugstéttir nái sjötta stigi.

Hvað skyldi nú gerast hjá geislastéttum og flugsstéttum þegar vart verður við þungun? Einn — hið snarasta er viðmiðið sett í einn. Það hefur ekkert með lífvænleika fósturs utan líkama móður að gera. Það hefur bara með fóstrið að gera.

Þannig að mér segir svo hugur að víða í regluverki okkar séum við að horfa til þess að með öllum ráðum sé tryggt að fóstrið sé verndað með þeim hætti sem hægt er. Nefni ég bara þessi tvö atriði hér sem dæmi, annars vegar þetta atriði úr barnaverndarlögunum og hins vegar það sem snýr að geislaálagi mismunandi starfsstétta, sem, eins og ég sagði áðan, fer rakleiðis niður í mælieininguna einn, sem er hið almenna viðmið, ef vart verður við þungun hjá konu í annaðhvort geislastétt eða flugstétt.

Að lokum langar mig til að koma stuttlega inn á sjónarmið Siðfræðistofnunar. Það hefur auðvitað verið rætt hér í ótal ræðum í þessari umræðu um áhyggjur þeirra sem efasemdir hafa um það hvernig málinu vindur fram, að hér séu menn að flýta sér of mikið, menn ígrundi þetta ekki nægjanlega, taki ekki nægjanlega tillit til þeirra sjónarmiða sem uppi eru þar sem fram koma áhyggjur af því sem hér er verið að leggja til og. Á það sjónarmið er í rauninni bent sérstaklega í niðurlagi álits Siðfræðistofnunar, sem ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa hér upp, en þar segir:

„Það er niðurstaða Siðfræðistofnunar að mikilvægt sé að flýta ekki um of afgreiðslu þessa frumvarps. Í fyrsta lagi telur Siðfræðistofnun varasamt að heimila þungunarrof allt til 22. viku því þá getur fóstur verið orðið lífvænlegt utan líkama móður, í öðru lagi þarf að huga vel að þeirri spennu sem er á milli þessa frumvarps og samnings Sameinuðu þjóðanna um rétt fatlaðs fólks. Hér eru í húfi grundvallarspurningar og álitamál um siðferðisstöðu fósturs, rétt fatlaðs fólks og sjálfsákvörðunarrétt kvenna sem þarfnast djúprar og upplýstrar umræðu í samfélaginu.“

Ég er nú bara einn af þeim sem upplifa þetta mál þannig að við séum fjarri því að hafa átt nógu ígrundaða umræðu, nógu djúpa umræðu, um þessi mál sem snúa að siðferðisstöðu fósturs, rétti fatlaðs fólks og sjálfsákvörðunarrétti kvenna. Mér heyrist í öllum meginatriðum að fáir hafi efasemdir um sjálfsákvörðunarrétt kvenna í þessu máli. En ég fyrir mitt leyti get sagt að ég hef miklar efasemdir um það að við drögum línuna í þessum efnum þannig að bara þegar klukkan slær, við skulum bara segja á miðnætti, fari það barn sem vex í maga móður sinnar frá því að þá meðgöngu megi enda með ákvörðun sem heilbrigðisstarfsfólk þarf að framfylgja og yfir í það — bara þegar klukkan slær á miðnætti — að þetta sama heilbrigðisstarfsfólk verði að verja líf þessa barns með öllum tiltækum ráðum sem heilbrigðisstarfsfólkið og heilbrigðisvísindin kunna. Þetta er auðvitað staða sem er ekki sanngjarnt að setja nokkra stétt í, held ég að mér sé óhætt að segja.

Ég vil bara að lokum ítreka að ég held að það hefði verið heillaspor að taka rýmri tíma til að ræða þetta mál og reyna að ná sátt, því nú er það jafnvægi sem verið hefur um áratugaskeið úr sér gengið. Hætt er við að þau sjónarmið sem hér takast á skilji okkur sem samfélag eftir á þeim stað að um þau verði harður slagur næstu misserin og næstu árin.

Þar með lýk ég þessari í ræðu minni og óska öllum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu hins besta.