149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:52]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Já, enn ræðum við þetta viðkvæma frumvarp til laga um þungunarrof, hugtak sem ég kýs að kalla fóstureyðingu hér eftir sem hingað til. Ýmis rök hafa verið sett fram, rök sem ég á afskaplega erfitt með að skilja.

Ég hef verið spurð: Ertu þá ekki alfarið á móti fóstureyðingum? Það væri rosalega fallegt samfélag, óneitanlega, ef við byggjum þannig að þegnarnir gætu tekist á við tilveru sína hverju sinni án þess að þurfa að taka þá erfiðu ákvörðun sem fóstureyðing er. Staðreyndin er sú að við búum ekki í slíku draumasamfélagi.

Eins og ég horfi upp á þá þróun sem er að verða í samfélaginu í dag er hún vond við fólk og marga jaðarhópa sem eiga undir högg að sækja. Til dæmis það að ítrekað er verið að tala um jaðartilvik þar sem um er að ræða félagslega erfiðleika. Hvað þýðir það? Það þýðir að verðandi móðir sem gengur með barnið sitt treystir sér hreinlega ekki til að ala önn fyrir því. Hún treystir sér ekki til að eiga barnið í mörgum tilvikum vegna fátæktar. Hugsa sér.

Við höfum búið til þannig samfélag að hér er sennilega þriðjungur þjóðarinnar vinnandi fólks að fá útborgað undir 300.000 kr. á mánuði eftir skatta. Hvernig á slíkt verðandi foreldri að geta séð fyrir sér? Að það geti í rauninni boðið barninu sínu upp á slíka og þvílíka tilveru? Í samfélagi okkar þarf tvo, í rauninni báða foreldra eða tvo einstaklinga, hvernig sem við kjósum að kalla það, til að ala önn fyrir einu heimili, ef við erum að tala um fyrirvinnur í láglaunastéttum. Það er staðreynd. Verðandi móðir sem þarf að setja barnið sitt í leikskóla eða til dagmóður vinnur myrkranna á milli. Hún sér ekki barnið vegna þess að hún berst við að fá mat á diskinn fyrir það. Þetta er Ísland í dag.

Það sem við erum að tala um núna er að rýmka heimild til fóstureyðinga til loka 22. viku — og nú ætla ég að segja, nei, ekki til loka 22. viku, 22. viku og sex daga. Það er nú eitt af þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram og sagt 22 vikur og sex dagar. (Gripið fram í: Nei.)(Gripið fram í: 21 vika og sex dagar.) — Við skulum halda áfram þegar kórinn hefur hætt að syngja hérna í hliðarherberginu ef hann vildi vera svo góður. Ég má kannski biðja hæstv. forseta að gefa mér frið.

Í núgildandi löggjöf er kveðið á um það í 10. gr. að fóstureyðing skuli framkvæmd eins fljótt og auðið er og helst fyrir lok 12. viku meðgöngutímans. Þeirri meginreglu er almennt fylgt. Það er jákvæði punkturinn í stöðunni. Yfir 90% af fóstureyðingum eru framkvæmdar fyrir þann tíma. Hins vegar höfum við í rauninni horft fram hjá meginreglunni hvað það varðar að við höfum framkallað þessar aðgerðir til loka 16. viku meðgöngu, enda stendur í lögunum:

„Fóstureyðing skal aldrei framkvæmd eftir 16. viku meðgöngutímans, nema fyrir hendi séu ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður …“

Hvað eru ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður? Það er eitthvað sem nú á að taka út fyrir sviga. Sjálfsákvörðunarréttur kvenna á að felast í því að þær segi sjálfar: Ég treysti mér bara ekki til að eiga þetta barn. Ég vil fara í fóstureyðingu núna og þið heilbrigðisstarfsmenn hafið ekkert um það að segja.

Ég tel þetta rangt. Ég tel ákvörðunina erfiða. Ég tel að þegar verið er að tala um ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður þá komi svo margt til vegna þess að hér hlýtur að fara fram heildstætt mat hjá heilbrigðisstarfsmanni sem verður að aðstoða konu sem óskar eftir umræddri aðgerð.

Til dæmis er mikið talað um að félagslegir erfiðleikar falli ekki undir þetta. Það er talað mikið um dæmisögur og komið er með jaðardæmi sem eru í rauninni virkilega sorgleg. Talað er um að vera ekki með gildishlaðin hugtök á sama tíma og hér eru dregin fram jaðartilvik sem maður vonast til að heyri frekar til undantekninga, fyrir utan það að ekki hefur verið neitt annað en bara sögusagnir í formi frásagna. Alveg sama hvernig maður óskar eftir því að fá eitthvað um annað. Meira að segja hefur verið sagt að fjórar konur hafi þurft að fara til Bretlands eftir 22. vikna meðgöngu til að fá gerða slíka aðgerð þar. Alveg sama hvernig ég reyni að spyrja landlæknisembættið um það, hvað sem er. Ég hef ekki fengið neitt nema sögusagnirnar. En gott og vel.

Nýja greinin, 4. gr., sem hefur staðið hvað verst í mér og eiginlega bara þversum, hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Heimilt er að rjúfa þungun konu, að hennar beiðni, til loka 22. viku þungunar. Þungunarrof skal ætíð framkvæmt eins fljótt og auðið er og helst fyrir lok 12. viku þungunar.“

Það er í rauninni það sem núgildandi löggjöf segir einnig, þessu meginmarkmiði er haldið þarna inni. Það hefur ítrekað verið vísað til þess hér að núgildandi löggjöf sé í raun að heimila fóstureyðingar jafn lengi og 4. gr. boðar.

Ég spurði hér síðast í andsvari við hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur um hvar þetta væri að finna í löggjöfinni. Þá kom það fram að það væri hvergi. Í núgildandi löggjöf er það hvergi að finna.

Með leyfi forseta, ætla ég að klára síðari málsgrein 4. gr. sem stendur jafn þversum í mér:

„Einungis er heimilt að framkvæma þungunarrof eftir lok 22. viku þungunar“ — takið eftir, eftir lok 22. viku, þetta er í rauninni eins og stendur núna í núgildandi löggjöf, eftir lok 16. viku, og áframhaldið er — „ef lífi þungaðrar konu er stefnt í hættu við áframhaldandi þungun eða ef fóstur telst ekki lífvænlegt til frambúðar.“ — Þarna er konan síðan svipt sjálfsákvörðunarrétti vegna þess að staðfesting tveggja lækna þarf að liggja fyrir, en í greininni stendur: — „Staðfesting tveggja lækna skal liggja fyrir þess efnis að fóstur teljist ekki lífvænlegt til frambúðar.“

Þau rök sem hér eru gjarnan dregin fram eru um sjálfsákvörðunarrétt okkar kvenna og að við eigum að ráða yfir eigin líkama. Gott og vel. En ég átta mig mjög illa á þessu að vissu marki. Ég veit ekki betur en að það sé alltaf konan sem á lokasvarið, a.m.k. í samfélagi okkar. Ég sé enga meinbugi á því að heilbrigðisstarfsmenn komi að því að hjálpa henni við slíka ákvörðun, enga. Ég sé enga annmarka á því. Það hefur meira að segja verið dregið fram hérna með karlmanninn sem kemur að þessu, að hann skipti í rauninni heldur engu máli. Þar eru líka stundum dregin fram einhver furðuleg jaðartilvik og hefur verið gert hér í ræðupúlti: Hvað á að gera? Á að draga fólk með lögregluvaldi til að láta það taka sameiginlega ákvörðun um hvort karlinn væri þá sammála því að slík aðgerð yrði framkvæmd, eða hvað?

Það er í rauninni verið að drepa málinu á dreif. Ég skil ekki svona umræðu. Mér finnst þetta líka erfitt mál miðað við hvernig þetta er úti í samfélaginu. Mér finnst að við gætum virkilega talað um þetta pínulítið öðruvísi. Karlmenn eru líka fólk með tilfinningalíf. Þeir koma að málum, það liggur í hlutarins eðli, og í samfélaginu er enn þá dálítið mikið um hjónafólk og pör. En það er einfaldlega margbúið að segja jafnvel að konan hafi það mikinn sjálfsákvörðunarrétt yfir þessu að karlinum komi þetta bara einfaldlega ekkert við. Mér finnst það ekki rétt, sér í lagi ekki þegar við tölum um þessa tímalengd á meðgöngu, þar sem konan er gengin með yfir 60% af meðgöngutímanum, þar sem eftir lifa 18 vikur meðgöngu.

Ég býst ekki við því að markmiðinu verði náð með meiri hluta þingheims eins og ég skil það. Þrátt fyrir að talað sé um sjálfsákvörðunarrétt kvenna þá þurrkast hann einhvern veginn út við lok 22. viku. Þá hættum við að ráða yfir eigin líkama og verðum að gjöra svo að ganga með barnið og þær konur sem sagan segir að hafi þurft að leita til Bretlands til að fá framkvæmda þessa aðgerð þurfa þá væntanlega að gera það eftir 22. viku, því að þá ráða þær ekki lengur yfir líkama sínum.

Flokkur fólksins lagði fram breytingartillögu 3. minni hluta við frumvarpið. Í fyrsta lagi teljum við ekki rétt að taka út hugtakið fóstureyðing og setja í staðinn hugtakið þungunarrof. Það er siðferðilega rangt í raun og veru, finnst okkur, að reyna að draga úr vægi hins gildishlaðna hugtaks sem fóstureyðing er. Það er ekki bara hugtakið, heldur verknaðurinn sjálfur sem felur í sér ákveðna aðgerð, aðgerð sem eyðir lífi. Það er staðreynd.

Ég hef verið spurð: Á ekki bara að ganga hreint til verks og segja bara nei við þessu öllu saman? Maður sé bara gamaldags og greinilega — ja, ég veit ekki hvað ég á að segja. En eitt er alveg víst að þau rök að tala t.d. um gamla löggjöf og að þessi löggjöf frá því 1975 sé barn síns tíma — þetta segja menn ítrekað hér vitandi það að almenn hegningarlög, lögin sem geta svipt okkur frelsi, lögin sem hafa það sterkasta og mesta inngrip í líf borgaranna sem hugsast getur, eru frá 1940. Og lögin um samningsrétt, alla samninga sem á milli okkar fara í samfélaginu eru frá 1936. Löggjafanum hefur ekki enn þá tekist að færa þau í nútímalegra horf. Við höfum jú í rauninni uppfært lögin, eins og lög um þungunarrof.

Við höfum reynt að uppfæra lögin í takt við tímann hverju sinni, en til gamans má geta þess einnig að dómstólar hafa jafnvel litið til mannhelgisbálks Jónsbókar og 13. kafla mannhelgisbálks Jónsbókar frá 1286 til að freista þess að komast að lagalegri niðurstöðu í erfiðum álitamálum sem þeir hafa fengið fyrir dóminn.

Við höfum sett mörkin við 12 vikur sem meginreglu. Við höfum ekki sagt að undanþágurnar sem nú hafa verið heimilaðar og í rauninni hefur það athugasemdalaust verið látið ganga í gegn að til loka 16. viku hafa konur almennt geta fengið þessa aðgerð.

Eftir þann tíma segi ég hreint og klárt: Ef það er ekki alger nauðsyn þykir mér lengri tími algerlega síðasta sort, siðferðilega rangur og lífsréttur ófædda barnsins einskis metinn. Við erum að tala hér tilfinningaþrungið; ég tali niður til þeirra, segja þeir sem þurfa að ganga í gegnum þetta og eiga um sárt að binda og erfitt er að taka ákvörðun, ég er ekki að gera það, engan veginn.

Virðulegi forseti. Mér þykir sárt og ég finn til í hjartanu að þurfa að tala um þetta hér og nú. Það mun aldrei verða um neina sátt að ræða hjá okkur í Flokki fólksins hvað frumvarpið varðar.