149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[19:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að fara mikið í andsvar við konur sem taka þátt í þessari umræðu vegna þess að ég tel mig skorta ákveðið innsæi sem er þörf á til að vera jafn vígur konum í umræðunni. Hins vegar tók ég eftir því í ræðu hv. þingmanns að hún fór aðeins inn á þá skoðun, eins og ég skildi hana, að faðirinn ætti að hafa eitthvað um málið að segja.

Ég er faðir og hefur verið giftur óléttri konu. Ég get ágætlega sett mig í þau spor að vera faðir ófædds barns og ég skil mætavel og er alveg sammála hv. þingmanni að það kemur föðurnum við. Það sem ég átta mig hins vegar ekki á er hvernig væri hægt að koma því fyrir lagalega. Ég velti fyrir mér hvernig það myndi líta út í beinhörðum lögum, í beinhörðu ferli. Segjum sem svo að ólétt kona hyggist fara í þungunarrof. Þyrfti þá undirskrift föðursins eða hvernig myndi það virka? Það er sá hluti ferlisins sem ég sé ekki fyrir mér.

Ég myndi alltaf vona að verðandi barnsmóðir mín myndi ráðfæra sig við mig og væri ekki sama hvað mér fyndist. Konurnar í lífi mínu hingað til hafa sagt að þær myndu alltaf hafa mig með í ráðum og myndu ekki vilja hafa það á neinn annan hátt. En ég get ekki alveg séð hvernig það getur verið eitthvað sem við innleiðum í lög. Ég fæ ekki betur séð en að slíkt þurfi alltaf að vera einstaklinga á milli.

Mig langaði að inna hv. þingmann eftir viðbrögðum við því hvort í raun og veru sé hægt að hafa það með í lögum eða hvort það sé eitthvað sem við neyðumst til að treysta fólki til að taka með inn í einkalíf sitt.