149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[19:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurningarnar sem vakna í mínum huga um leið og ég reyni að velta þessu fyrir mér eru æðimargar og svolítið flóknar. Um leið og við segjum t.d. að ef faðirinn er sambúðarmaki þurfum við væntanleg undirskrift hans eða ef þau eru gift — hvað þá ef þau eru trúlofuð, hvað ef þau eru nýhætt saman? Mér finnst þetta vera einn af þeim hlutum í mannlegu samfélagi sem löggjafinn getur ekki komið að.

Ég myndi alltaf vona að fólk hefði sem mest samráð um slíkt og að þetta væri sem minnst leiðinlegt og erfitt fyrir fólk, bæði verðandi móður eða ólétta konu og föðurinn og alla sem koma að málinu, enda ekki auðveld ákvörðun og í sjálfu sér ávallt staða sem er að einhverju leyti slæm.

Verkefnið sem ég sé fyrir framan okkur er að búa til lagaumgjörð sem varðar það hvernig lögin virka, en ekki að við getum í raun og veru sett lög til þess að aðstæður fólks eða vilji þess sé alltaf eins og við teljum ákjósanlegast.

Auðvitað er alltaf ákjósanlegast að faðirinn sé með í ráðum en lagalega sé ég ekki alveg hvernig væri hægt að gera það. Þá erum við í raun og veru að færa vald yfir líkama einnar manneskju í hendur annarrar manneskju vegna þess eins kannski að sú manneskja er verðandi faðir. Það passar ekki alveg inn í hausinn á mér lagalega, verð ég að segja. Ég ætlast svo sem ekki til svars af hv. þingmanni. Mér fannst bara rétt að velta því upp vegna þess að ég er í sjálfu sér sammála hv. þingmanni um að þetta sé alltaf æskilegast og ég vona að það sé alltaf tilfellið. En ég sé ekki hvernig við getum tekið það inn í lagasetningunni sjálfa.