149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[19:14]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson segir er það auðvitað æskilegast í stöðunni. Það er ekki verið að tala um að varðandi faðir komi með skriflegt umboð. Það sem mér finnst hins vegar standa upp úr í umræðunni er sú rosalega ríka áhersla sem lögð er á sjálfsákvörðunarrétt kvenna, að við ráðum yfir eigin líkama. Mér finnst allt annað í raun algerlega sett til hliðar.

Það stingur að þurfa að horfa upp á þetta. Þrátt fyrir að við höfum barist fyrir kvenfrelsi og þrátt fyrir að hér standi kona finnst mér þetta vera komið út fyrir allt sem er, hvað á ég að segja, eitthvað sem ég get verið stolt yfir sem kona að keppast við að ná fram til að flokka undir jafnrétti og frelsi fyrir konur.

Ég myndi ekki vilja ráða því hvort ég byndi endi á líf t.d. ófædds barns alein og án aðstoðar þegar ég væri gengin svona langt. Ég hefði gjarnan viljað sjá þetta fært í öðruvísi búning. Hér eru margir flokkar og við erum með ólíkar skoðanir og hugsjónir. En mér finnst að faðirinn sé bara ekki tekinn með, eins og það sé enginn faðir í dæminu.