149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[19:15]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vera stuttorður. Ég kem aðallega hér til að lýsa yfir hvað mér finnst þessi umræða undarleg, takmörkuð. Hér er verið að ræða um jafnvel hvernig aðkoma sambúðarmanns eða karlsins eigi að vera. Við vitum ekki alltaf hver hann einu sinni. (Gripið fram í: Ekki snúa út úr fyrir mér.) Svo er umræðan um hvort þetta eigi að vera 22 vikur, eða 20 vikur, 12 vikur eða 16 vikur. Svo er líka umræða um hvort þetta sé um kvenfrelsi og sjálfsákvörðunarrétt. Við ræðum ekki um það sem skiptir máli, stóru siðferðilegu málefnin. Og þess vegna segi ég: Frumvörp af þessu tagi þurfa miklu meiri umræðu. Þetta á ekki að snúast um 22 vikur eða 20. Við þurfum að velta því upp hvenær líf kviknar. Hvaða réttindi á fóstur í lögum? Á ekki fóstur t.d. erfðaréttindi? Er það bara einhver sjálfsákvörðunarréttur konunnar eða hjónanna hvort það missir þessi réttindi? Það tekur enginn þá umræðu. Ekki nokkur maður.

Hér tala menn mikið um kvenfrelsi og sjálfsákvörðunarrétt. En sama fólkið sem talar mest um það hefur engan áhuga á sjálfsákvörðunarrétti og kvenfrelsi staðgöngumæðra eða þeirra sem vilja stunda kynlífsviðskipti. Þá skiptir þessi sjálfsákvörðunarréttur og kvenfrelsi ekki nokkru máli, nema síður sé. Það rekst hvað á annars horn í þessari rökræðu. Þetta er undarleg rökræða.

Ég held að við þurfum að velta því fyrir okkur hvenær líf kviknar, hvaða réttindi það líf hefur nú þegar í lögum, og mörg önnur réttindi sem það hefur lögum samkvæmt. Ég hef ekki heyrt einn einasta mann minnast á það. Ekki einn einasta þingmann.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta er mjög erfitt. Við höfum hér dæmi um félagslega erfiðleika, um heilbrigðissjónarmið, sem enginn vafi er á þegar um er að ræða heilbrigði móðurinnar. En það er margt annað sem getur verið tengt heilbrigðismálum. Það að eyða fóstri eða rjúfa þungun er ekki læknisfræðilegt þó að læknir þurfi að framkvæma það. Þetta er ákvörðun um inngrip á fóstri sem hefur réttindi. Við verðum að taka alvöruumræðu um það út frá siðferðislegum sjónarmiðum, jafnvel heimspekilegum: Bíddu, hvernig á þetta að vera? En ekki eyða öllum tímanum í umræðu um vikur, hvað þá að þetta snúist eitthvað um kvenfrelsi. Þetta snýst auðvitað ekkert um kvenfrelsi. Þetta snýst um það hvort fóstur eigi einhver réttindi. Það hefur það nú þegar í lögum.

Hvenær kviknar líf? Það eru spurningarnar sem við eigum að vera að ræða hér, en það ræðir þær enginn. Menn eru bara einhvern veginn að færa gömlu lögin til nútímans og reyna að auka eitthvað svigrúmið, þ.e. að rjúfa megi þungunina löngu síðar, eða a.m.k. síðar en nú er gert. Ef þetta snerist um kvenfrelsi og sjálfsákvörðunarrétt ætti það ekki að takmarkast við 22 vikur. Þá er náttúrlega langeðlilegast að það sé alveg út alla meðgönguna. Öll þessi rökræða gengur ekki upp í mínum huga.

Þannig að ég held að það væri nú alveg tilvalið, af því að það er liggur kannski ekki svo mikið á þessu, að við bara drögum þetta til baka í bili og ræðum þetta upp á nýtt út frá þessum atriðum. Ég held að það sé mjög mikilvægt, vegna þess að þetta er risamál. Þetta er risamál í hugum margra. Og þó að ég geti alveg viðurkennt það hér að fóstureyðingar hafa í sjálfu sér ekki truflað mig, þá er ég ekki einn í heiminum. Ég hef hins vegar aldrei fundið neitt sérstaklega góð rök fyrir því að konur eigi bara heimild til að rjúfa þungun þegar þeim sýnist, eða hvort er þá í 22. viku eða einhverri annarri viku, að það sé eitthvert réttindamál að eyða fóstrinu. Það eru engin rök fyrir því að það sé bara einföld ákvörðun konunnar, en ég skil alveg þau sjónarmið að það geta verið ýmis heilbrigðistengd atriði, félagsleg atriði o.s.frv., þar sem ógerlegt er með góðu móti að fóstrið lifi alla meðgönguna. Það kann að vera. Ég ætla ekki að gera lítið úr því.

En þessi rökræða um sjálfsákvörðunarrétt, kvenfrelsi, vikur, finnst mér mjög slöpp. Það er eins og enginn þori raunverulega að taka hina stóru umræðu, sem skiptir auðvitað máli: Hvaða réttindi á fóstur? Hvenær öðlast það réttindi? Og hvað er eðlilegt í því út frá okkar siðferðisviðmiðunum að eyða fóstri eða rjúfa þungun með aðgerð heilbrigðisstarfsmanna?

Ég vildi bara koma þessu að, ekki það að þetta mál trufli neitt rosamikið. Ég vil bara koma þessu að því að ég tel rétt að við förum í alvöruumræðu um þungunarrof eða fóstureyðingu, eða hvað menn vilja kalla þetta, sjálfsákvörðunarrétt o.s.frv.