149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[19:25]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi spurning, hvers vegna viðkomandi þingmaður var ekki viðstaddur, á ekkert erindi í umræðuna. Ég er bara að tala um það sem ég hef heyrt hér í dag af því að ég er viðstaddur í dag. Ég var í útlöndum þegar 2. umr. fór fram.

Ég er bara að segja að það hefur ekkert komið fram um þetta í dag. Ég hef setið yfir þessu í dag. Ég veit hvernig þessi umræða hefur meira og minna verið. Það kann að vera að einhver hafi komið inn á þetta, en ég hef engan heyrt gera það, þó heyrði ég samt, af því að tæknin leyfir mér það, hluta af 2. umr. yfir landamæri og það var sama umræðan. Allt í einu snerist þetta allt um sjálfsákvörðunarrétt og kvenfrelsi. Þetta hefur ekkert með það að gera. Það hefur með þessa spurningu að gera: Á fóstur einhver réttindi? Hefur það einhver réttindi í lögum sem það hefur svo sannarlega í dag? Og hvar liggja siðferðisviðmið í þessu?