149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[19:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla svolítið inn í svipaða sálma og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og benda hv. þm. Brynjari Níelssyni á að það hefur víst verið rætt hvenær líf kvikni, hvaða réttindi fóstur hafi og um sjálfsákvörðunarrétt kvenna og allt það.

Hv. þingmaður gerði það sem hann gerir stundum þegar hann þarf að vera á móti einhverju frelsi. Þá byrjar hann að tala um það sem hann upplifir og talar um það sem hræsni annarra ef þeir eru ekki sammála honum í einhverju allt öðru máli og nefndi hann sérstaklega staðgöngumæðrun og kynlífsþjónustu. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það myndi breyta einhverju um afstöðu hans ef hann hitti einhvern sem væri hlynntur þessu máli og hlynntur því að konur hafi sjálfsákvörðunarrétt þegar kemur að staðgöngumæðrun og hlynntur því að konur hafi sjálfsákvörðunarrétt þegar kemur að kynlífsþjónustu. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar sjálfur. Ég er hlynntur öllum þeim málum. Staðgöngumæðrun er reyndar eitthvað sem maður ræðir ekki í andsvari um óskylt mál, hún er aðeins of viðamikil.

Mér finnst málflutningur hv. þingmanns skrýtinn og langar að vita hvort það huggi hann eitthvað (Forseti hringir.) að vita að aðrir sem eru væntanlega sammála honum um staðgöngumæðrun og kynlífsþjónustu og sjálfsákvörðunarétt kvenna þar séu líka hlynntir sjálfsákvörðunarrétti kvenna í þessu máli. (Forseti hringir.) En hvers vegna ekki hv. þingmaður?