149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[19:38]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, já, ég er bara mjög ánægður að heyra það að einhver er ánægður með ræðu mína. Það er ekki á hverjum degi sem menn eru það.

En ég hef kannski ekki miklu við þetta að bæta. Ég upplifi það sama og hv. þm. Bergþór Ólason, bæði í því sem ég hef heyrt í dag og því sem ég fletti í 2. umr.: Mér fannst umræðan nánast eingöngu snúast um þessi atriði sem ég tel engu máli skipta eða litlu máli skipta þó að ég skilji alveg áhyggjur fólks. Ég skil áhyggjur fólks um þau dæmi sem eru tekin, erfiðleikana sem geta verið í þessu, vandamál sem geta komið upp. En við verðum samt einhvern veginn að reyna að nálgast þessa umræðu út frá grundvallarprinsippunum, grundvallaratriðunum, sem eru auðvitað lykilatriði í öllu svona, í staðinn fyrir að keyra þetta í gegn á þessum einföldu rökræðum sem mér finnst ekki skipta máli.