149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[19:55]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um þungunarrof. Ég ætla ekkert að lengja þessa umræðu mikið. Ég hef ekki tekið þátt í umræðunni um málið til þessa en það þýðir ekki að ég hafi ekki fylgst með því, síður en svo. Þetta er mjög viðkvæmt mál og það hefur komið fram hjá nánast öllum sem hafa tjáð sig um það og það er ekkert skrýtið. Ég var að hlusta á ræðurnar á undan og mér fannst góð ræðan hjá hv. þm. Brynjari Níelssyni þegar hann talaði um að það hefði lítið verið talað um réttindi fósturs. Ég hef einmitt hugsað mikið um það. Ég er sammála þeirri spurningu og spyr að því líka: Hvenær hefjast þau réttindi? Ég er líka þannig upp alinn að ég er trúaður og ég trúi á æðri mátt, ég trúi líka á Jesú Krist. Þar af leiðandi er það mér bara mjög erfitt að ræða þetta mál en úr því að ég er kominn hérna upp þá er það orðið opinbert.

Ég ætlaði að koma hingað upp aðallega til að ræða það að í andsvörum í dag kom hv. þm. Andrés Ingi Jónsson í andsvar við hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur við hennar ræðu og fór að tala um það og nafngreindi þann sem hér stendur að hann hefði verið á nefndarfundi hjá velferðarnefnd sem varamaður hennar, sem er rétt. Þar hefðu legið fyrir skriflegar spurningar, 16 talsins, frá hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur og beiðni um gestakomur. Hv. þingmaður talaði um að sá sem hér stendur hefði ekki getað fært rök fyrir þessum spurningum.

Það er mikið rétt. Ég var þeim spurningum ekki svo kunnugur og hafði ekki fylgst það mikið með málinu að ég gæti fært rök fyrir þeim. Ég var þarna inni sem varamaður í forföllum hv. þingmanns Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, með litlum fyrirvara, og hún hafði sent þessar spurningar inn. Ef það eru rök fyrir því að ekki hafi verið hægt að fjalla áfram um málið í nefndinni, að sá sem hér stendur gat ekki fært rök fyrir því um hvað spurningarnar fjölluðu, þá er það engin skylda. Ég vildi bara að það kæmi hér fram. Mér bar ekkert að færa nein rök fyrir því, svo að það sé sagt.

Ég lét það koma fram á fundinum þegar ég tók til máls að ég væri í stórum dráttum sammála þessu frumvarpi. Þetta væru lög síðan 1975 sem flestallir eru sammála um að þurfi að endurskoða. Í frumvarpinu er margt lagfært sem var þörf á. En ég hef allan tímann sett spurningarmerki við það sem fjallað er um í 4. gr., um 22 vikurnar, sem margsinnis hefur verið rætt um, einfaldlega vegna þess að um þetta leyti meðgöngunnar verður fóstur lífvænlegt. Það hafa komið fram breytingartillögur sem nálgast það sem ég gæti sætt mig við. Ég hef ekki tekið beina afstöðu til þess að svo komnu máli.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Brynjars Níelssonar að hann talaði um að oft og tíðum veigra þingmenn sér við að taka þátt í heitum umræðum þar sem ofsinn og viðbrögðin eru mikil. Ég viðurkenni það algjörlega að ég er einn af þeim. Ég hef bara staðið sjálfan mig að því í gegnum tíðina. Það er sennilega vegna þess að mér er það meira í blóð borið að berjast við ísköld náttúruöflin og þá oftast úti á sjó undanfarna áratugi, en þegar kemur að svona viðkvæmum málum eins og við fjöllum um hér þá verð ég frekar lítill í mér. Ég get alveg haft skoðanir á þessu. Mér finnst þetta hið besta mál nema hvað varðar þennan vikufjölda sem tiltekinn er, 22 vikur. Við það situr. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra.