149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[20:04]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég vil árétta að þetta voru ekki mínar spurningar heldur spurningar sem hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir lagði fram skriflega og hafði sent í tölvupósti. Það er bara mat hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar að það hafi engin rök verið í málinu og þess vegna hafi velferðarnefnd vísað þessu frá. Það er mat hans og ég er ekkert endilega sammála því.

Í sambandi við tilfinningarök miðaldra karlmanna er ég kominn yfir miðjan aldur, nema guð gefi það að ég verði yfir 120 ára gamall sem ég á ekki von á. Við sem eru komnir yfir miðjan aldur höfum líka tilfinningar. Þær geta líka verið alveg ágætar en hafa oft fengið mjög skrýtnar móttökur hjá ýmsum þingmönnum, eins og frekir miðaldra karlmenn eigi ekki rétt á því að færa fram rök sín ef þau eru mjög tilfinningaþrungin.