149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[20:06]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vona að hv. þingmaður komist sem næst því að verða 120 ára þótt það sé kannski fullhár aldur fyrir nokkurn mann. Já, þetta voru ekki spurningar þingmannsins sem voru bornar inn á velferðarnefndarfundinn en það skiptir bara engu máli. Þingmaðurinn var talsmaður spurninganna á þeim fundi. Hvað átti nefndin að gera? Átti hún að bíða þangað til höfundur spurninganna ætti heimangengt og kæmist á fundinn? Átti að fresta málinu vegna forfalla? Það er ekki boðleg tilætlunarsemi gagnvart þingnefnd.

Þess vegna báðum við hv. þm. Sigurð Pál Jónsson, þann Miðflokksmann sem var viðstaddur, að færa rök fyrir því að kalla þyrfti inn nýja gesti. Þau rök þurftu að felast í því að eitthvað hefði breyst frá því að fulltrúi Miðflokksins í nefndinni samþykkti málið út úr nefndinni. Það er ekki bara mitt mat að þau hafi ekki verið færð fram heldur var ekki eitt einasta dæmi nefnt. Ef þingmaðurinn telur sig geta nefnt eitthvert slíkt dæmi, eitthvert dæmi af blaðinu með 16 spurningunum, eitthvert dæmi úr 2. umr. þar sem komu fram nýjar upplýsingar sem ekki komu fram í fyrri umræðum eða í umsögnum eða við gestakomur þá gefst honum tækifæri til þess núna.