149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

539. mál
[21:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er almennt hlynntur fríverslunarsamningum og frjálsum viðskiptum. Hér voru áðan nefndar vörur og peningar: Vörur og peningar bjarga mannslífum, vörur og peningar hjálpa til við að tryggja frelsi og réttindi fólks. Það eru peningar sem gera okkur kleift að gefa peninga, t.d. til hjálparstofnana. Þannig að ég lít á viðskipti sem í eðli sínu jákvætt fyrirbæri.

Mér finnst mjög leiðinlegt að þurfa að vera á móti fríverslunarsamningi. En ég get ekki annað en verið á móti þessum, af þeirri einföldu en bara siðferðislegu ástæðu að mér finnst ekki heiðarlegt að fullgilda þennan fríverslunarsamning miðað við það sem kemur fram í inngangsorðunum. Í þeim er, með leyfi forseta, áréttuð sú skuldbinding:

„að styðja við lýðræði, réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi í samræmi við skyldur sínar að þjóðarétti, m.a. í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.“

Það er slæmur brandari, virðulegur forseti, að fullgilda þetta með Duterte við völd á Filippseyjum. Þegar ég hef ætlað að tala um hrotta og ómenni eins og Duterte eða Donald Trump eða Bolsonaro, sem eru allir hrottar og — hérna lendi ég í þeim vanda að ég þarf eiginlega að spyrja virðulegan forseta: Hvert er versta orðið sem mér er heimilt að nota í pontu? Ég ætla nú ekki að biðja virðulegan forseta af neinni alvöru að svara því vegna þess að ég veit að það er matsatriði sem virðulegan forseta langar kannski ekki að fara í akkúrat núna. Ég ber virðingu fyrir því. En mig vantar nógu slæm orð til að lýsa því hvers konar manneskjur við erum að tala um þegar við tölum um Duterte og álíka gaura. Fyrir merkilega tilviljun eru þetta allt gaurar. Hafið þið tekið eftir því?

En eins og nefnt var áðan: Í viðleitni til að bæta úr skák mætti líta á fríverslunarsamninga sem þessa sem leið til þess að reyna að bæta ástandið í því ríki sem við værum að versla við. Ég hugsa að í einhverjum tilfellum gæti það alveg gerst. Ef við t.d. værum við að koma út úr tímabili þar sem vitfirringar eins og Duterte væru við völd og inn í tímabil þar sem hann væri annaðhvort búinn aðeins að slaka á eða einhver annar tekinn við sem væri líklegt að væri á einhvern hátt öðruvísi — þá hugsa ég að ég gæti stutt þetta. En tilfellið er að Duterte er við völd og fátt sem bendir til þess að það breytist í bráð. Hann gefur bara í, ef eitthvað er.

Mér finnst svo mikilvægt í andrúmslofti heimsins í dag þar sem við erum með brjálæðinga eins og Donald Trump og Bolsonaro og Duterte að við segjum nei við þessa gaura. Að við leyfum þeim ekki að láta eins og það sé á einhvern hátt í lagi að þeir séu við völd. Hvort sem þeir voru kjörnir eða ekki. Hegðun sem þessir karlmenn sýna er einfaldlega ekki boðleg siðmenntuðu fólki. Við eigum bara að segja það upphátt. Við eigum ekkert að láta eins og það komi til greina að viðurkenna brjálæðið sem viðgengst á Filippseyjum sem stuðning við lýðræði, réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi.

Virðulegur forseti. Slæmur brandari, eins og ég segi. Það er ekki hægt að skrifa undir þetta heiðarlega. Ég ber alveg virðingu fyrir þeim hv. þingmönnum sem vilja skrifa undir í viðleitni til að bæta ástandið í Filippseyjum. Ég ber virðingu fyrir því og vona að þeir hafi rétt fyrir sér. En það kostar þennan heiðarleika. Það kostar það að þeir þurfi að skrifa undir vitandi að þeir eru að skrifa undir eitthvað sem er ekki satt, mjög bersýnilega ekki satt. (Gripið fram í.)Það er ekki mitt að dæma. Það er bara mitt að taka ákvörðun um mitt eigið atkvæði og ég get ekki með góðri samvisku stutt þetta mál, eins mikið og mig langar til þess. Eins mikið og mig langar almennt til að samþykkja fríverslunarsamninga.

Það eina sem hefur fengið mig til að efast — hvað á maður að segja? Mér datt nýlega í hug að spyrja sjálfan mig hvort ég myndi ekki styðja fríverslunarsamning við Bandaríkin þrátt fyrir Donald Trump, sem er nú ekki alveg jafn hræðilegur og Duterte, aðallega vegna þess hann hefur ekki völdin til að framkvæma allt sem honum dettur í hug þá sekúnduna. Að öðru leyti tel ég voða lítil takmörk fyrir því hvað sá vitfirringur er reiðubúinn til að gera. Ég hef ekki séð neitt sem bendir til þess að því séu nein takmörk sett. Það er ekkert sem ég get ímyndað mér að Donald Trump myndi ekki gera nema vegna þess að Bandaríkin eru blessunarlega byggð eftir þeirri forskrift að vitfirringur gæti komið til valda og þess vegna er aðhald og mótvægi mjög rótgróið fyrirbæri í bandarísku stjórnkerfi. Það er það eina sem hefur hemil á þessu óargadýri sem er við völd núna.

Ég velti fyrir mér: Ættum við þá ekki að samþykkja samning við Bandaríkin? Ég myndi segja að það væri öðruvísi vegna þess að við vitum að Donald Trump fer frá fyrr eða síðar, með einum eða öðrum hætti. „Stay tuned,“ eins og þeir segja vestan hafs, virðulegi forseti. (Gripið fram í: Vonandi.) Já, vonandi verður honum sem fyrst komið frá.

En það er vegna þess að í bandarísku samfélagi myndi ég segja að sé þó viðleitni til að hlutirnir skáni, fyrir utan að þeir eru ekki jafn slæmir og undir Duterte. Yfirvöld eru ekki beinlínis að myrða fólk á götum úti eins og á Filippseyjum. Samanburðurinn er sem sagt ósanngjarnt að því marki. En það er líka vegna þess að Bandaríkin eru eðlisólík stjórnvöld því að þau hafa þetta aðhald og mótvægi, vegna þess að það er hægt að gera samninga við þau og búast við því að þá taki bandaríska kerfið einhvern veginn við. Að það meti þessi inngangsorð einhvers. Ekki jafn mikils og maður myndi kannski vilja en einhvers. Það eru einhverjir bírókratar hér eða þar sem lesa þetta og breyta aðeins öðruvísi í kjölfarið. Það er fólk sem vill stunda viðskipti sem lítur á þetta og kannski tekur mark á því.

Á Filippseyjum er það einfaldlega ekki tilfellið eins og er. Þetta er bara áframhaldandi vitfirra og brjálæði og ekkert sem bendir til þess að það breytist. Þvert á móti virðist það ætla að halda áfram að versna. Við þær aðstæður getum við ekki látið eins og við séum að fara að laga eitthvað með þessu fríverslunarsamningi. Því miður. Það væri svo óskandi að hægt væri að halda skemmtilegri ræðu um þennan fríverslunarsamning — sem væri ágætur undir öðrum kringumstæðum.

Þá vil ég bara ljúka ræðu minni á því að árétta það sem hv. þm. Smári McCarthy sagði áðan: Undir öðrum kringumstæðum og í framtíðinni þegar vitfirrunni linnir finnst mér sjálfsagt að endurskoða þetta og taka upp fríverslunarsamning við Filippseyjar. Það er í eðli sínu jákvætt markmið. Samningurinn sem slíkur veit ég ekki betur en að sé ágætur. Það eru bara þessar vonandi tímabundnu aðstæður sem fyrirbyggja að ég geti stutt málið með hreinni samvisku.