149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

frumvarp um þungunarrof.

[15:12]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Í dag greiðum við atkvæði um hið svokallaða þungunarrofsfrumvarp heilbrigðisráðherra. Ég hef verið að velta fyrir mér, og þess vegna langaði mig til að koma upp í fyrirspurn við ráðherrann, hvort aldrei á neinum tímapunkti hafi verið hugsað út í það hversu ofboðslega viðkvæmt og stórt þetta mál er. Var aldrei hugsað út í það hvort það ætti að nálgast það á einhverjum öðrum forsendum, með heildstæðri nálgun sem lyti kannski um leið að forvörnum, skaðaminnkun, snemmtækri íhlutun? Það lyti einhverju öðru en t.d. þeim rökum að það snerist fyrst og síðast um sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama, sem virðist nú renna út við lok 22. viku meðgöngunnar. Þá halda greinilega þau rök ekki lengur.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra: Er málið ekki þannig vaxið, þegar við finnum að það er mjög mikil undiralda úti í samfélaginu, að við hefðum getað reynt í meiri sátt og samlyndi að ná utan um þetta viðkvæma mál og gert það þannig að við gætum öll vel við unað?