149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

kjaramál.

[16:28]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu og hæstv. forsætisráðherra fyrir að vera til svara. Lífskjarasamningar sem gerðir hafa verið gilda ekki fyrir öryrkja og eldri borgara. Það er komið alveg á hreint. Hið fjárhagslega ofbeldi, sem hingað til hefur alltaf verið beitt gagnvart eldri borgurum og öryrkjum, mun halda áfram. Það er alveg með ólíkindum að sá hópur skuli alltaf sitja eftir.

Ef við horfum á þetta út frá því hvernig samið var í þessum lífskjarasamningum þá eru samningarnir frá 1. apríl. En eiga eldri borgarar og öryrkjar að fá hækkun frá 1. apríl? Nei. Eiga eldri borgarar og öryrkjar að fá hækkun 1. janúar á næsta ári afturvirkt frá 1. apríl? Nei.

Fjárhagslega ofbeldið heldur áfram. Eldri borgarar og öryrkjar eiga áfram að lifa á — hverju? Prósentureikningi? Það borðar enginn prósentur. Á meðaltali? Það er ekkert hægt að gera við það. Nei, það á að svelta þá og uppreikna samkvæmt neysluvísitölu til að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll og áfram að sá hópur verið svikinn enn og aftur.

Af hverju eru engir samningar gerðir við eldri borgara og öryrkja á sama grundvelli og aðra? Hvers vegna í ósköpunum hafa eldri borgarar og öryrkjar dregist svona aftur úr miðað við atvinnuleysisbætur? Er erfiðara að lifa tímabundið á atvinnuleysisbótum en varanlega á bótum þeirra öryrkja og eldri borgara sem verst hafa það? Það er krafa og það á að vera krafa að hætta að sparka í eldri borgara og öryrkja fjárhagslega og sjá til þess að þeir fái nákvæmlega sama og aðrir fá í þessum lífskjarasamningum.